Alfa Lyfjaumsýsla – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

26.10.2018

Alfa er hugbúnaðarlausn sem hefur það að markmiði að auka skilvirkni og öryggi í lyfjaumsýslu í apótekum, sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum.

Í ágúst lauk verkefni sem Þula – Norrænt hugvit hefur unnið með stuðningi Tækniþróunarsjóðs síðastliðin þrjú ár.

Verkefnið gekk undir nafninu Alfa Lyfjaumsýsla og var því ætlað að hagnýta og byggja ofan á þekkingu og reynslu frá sambærilegum verkefnum sem Þula hafði unnið fyrir viðskiptavini í Noregi og koma þeim á markað á Íslandi, en á sama tíma leggja grunn að sókn á markaði utan Íslands og Noregs.

Alfa er hugbúnaðarlausn sem hefur það að markmiði að auka skilvirkni og öryggi í lyfjaumsýslu í apótekum, sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum. Eftir miklu er að slægjast þar sem lyf eru dýr og vandmeðfarin vara og kostnaður við lyf vegur þungt í rekstri heilbrigðisstofnana. Stærstur hluti verkferla við lyfjafyrirmæli fyrir inniliggjandi einstaklinga og birgðastýringu lyfja hefur verið drifinn áfram með verkferlum sem byggja á pappír með tilheyrandi óhagkvæmni og villuhættu.

Heiti verkefnis: Alfa Lyfjaumsýsla
Verkefnisstjóri: Ægir Örn Leifsson, Þulu – Norrænu hugviti ehf.
Styrkþegi: Þula – Norrænt hugvit ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2015-2017
Fjárhæð styrks: 45 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnið fólst í að staðfæra fyrir Íslenskan markað lausnir sem áður höfðu verið þróaðar fyrir viðskiptavini í Noregi, ásamt því sem viðamiklar nýjungar voru þróaðar í samvinnu við Öldrunarheimili Akureyrar og Lyfjaver. Þar er m.a. um að ræða hagnýtingu á klínískum lyfjagagnagrunni, einingu sem stuðlar að auknu öryggi við meðferð og lyfjafræðilegt eftirlit með eftirritunarskyldum lyfjum, þverfaglegan stuðning við gerð lyfjafyrirmæla með sérstökum stuðningi við fjölskömmtun svo fátt eitt sé nefnt. Samhliða þessu var Alfa-lausnin samþætt við birgðakerfi sem notuð eru á sérgreinasjúkrahúsum landsins og einnig við viðskiptakerfi Lyfjavers.

Þegar hafa nokkrar stofnanir hérlendis tekið Alfa-lausnina upp og innleitt með góðum árangri og fyrirsjáanlega mun notendum fjölga á næstu misserum.

Verkefnið hefur gert okkur kleift að skilja hvað þarf til að staðfæra Alfa-lausnina fyrir nýja markaði og hefur Þula þegar hafið undirbúning að sókn á nýja markaði – á Írlandi og í Bretlandi. Í þeirri vinnu höfum við þegar greint ný tækifæri til að þróa Alfa-lausnina áfram til að ná til nýrrar tegundar viðskiptavina.

Á ráðstefnu sem haldin var í júní og bar yfirskriftina "Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“ voru Öldrunarheimilum Akureyrar færð aðalverðlaun fyrir nýsköpunarverkefnið "Alfa- rafrænt lyfjaumsjónarkerfi" sem ÖA, Lyfjaver og Þula – norrænt hugvit, hafa unnið að á síðustu árum. Ráðstefnan er samvinnuverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Það er okkur hjá Þulu mikil hvatning að sjá viðskiptavini okkar ná árangri með þessum hætti.

Sjá: https://www.akureyri.is/is/frettir/verdlaun-og-vidurkenning-til-oldrunarheimila-akureyrar

Þetta vefsvæði byggir á Eplica