Astrid XR - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

10.1.2022

Á undanförnum tveimur árum hefur Gagarín unnið að lausnum fyrir söfn, sýningar og skóla þar sem sýndar- og viðbótarveruleikatækni er notuð til þess að koma flóknum sögum á framfæri á áhrifaríkan hátt. Verkefnið hlaut styrk Tækniþróunarsjóðs árin 2019-2021.

Verkefnið kallast Astrid XR og hefur útkoman úr því raungerst í nokkrum sýningaratriðum og frumgerðum. Þar má nefna sýningaratriðið, Aðalstræti 1906, sem opnar hjá Borgarsögusafni vorið 2022 og Loftslagsfræðsluna Lystigarður möguleikannna (e: Garden of Choices) sem er hugsuð fyrir eldri bekki grunnskóla og fyrstu ár menntaskóla og fer í prófanir haustið 2021. Á næstu árum munu fleiri sýningaratriði líta dagsins ljós þar sem er notast við þá tækni sem þróuð var í þessu verkefni, þar á meðal í Náttúruminjasafninu í Osló, við Hofstaði í Garðabæ og í Spisa safninu í Slóvakíu.Logo tækniþróunarsjóðs

Á verkefnistímanum var lögð áhersla á að skoða möguleika frásagnarlistar innan þessara nýju miðla þar sem möguleikar á hrífandi gagnvirkni og sjónrænni þrívíddarveislu opna dyr inn í ólíka tegund skynjunar og næmni en við erum vön. Í ljósi þessa töfrandi möguleika er gríðarleg þörf á að spyrja sig hvers konar sögur þarf að segja og fyrir hverja? Í verkefninu Astrid XR fengum við í Gagarín einstakt tækifæri til þess að taka þátt í að móta það hvernig þessi nýja tækni er notuð og fyrir hverja. Við beindum augunum að viðskiptavinum og samstarfsfólki í safnaheiminum og skoðuðum hvernig sögur þarf að segja þar. Þegar við búum til upplifanir fyrir söfn og sýningar er iðulega vísindafólk á bak við tjöldin og hlutverk okkar er að miðla úr þeim þekkingar- og viskubrunnum sem það býr að og gera aðgengilegra fyrir almenning. Möguleikar sýndar- og viðbótarveruleikatækni til frásagna er ótæmandi en við lögðum einnig áherslu á samveru og þátttöku þar sem það að deila saman rými og uppgötvunum eru lykilatriði þegar farið er á söfn og sýningar.

Eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna yfirvofandi loftslagsvár er miðlun og fræðsla. Þetta kemur fram í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem og í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda um loftslagsmál. Þessi áskorun kemur einnig upp í all flestum verkefnum sem koma inn á borð til Gagarín sem fela í sér að miðla sögum um samfélag og umhverfi. Því voru loftslagsmálin og miðlun á þeim tekin sérstaklega fyrir í verkefninu. Við tókum þá afstöðu að fjalla um loftslagsmál út frá ólíkum sjónarhornum og höfða sérstaklega til ungs fólks með þróun á loftslagsleiknum Lystigarður möguleikanna (e: Garden of Choices). Við vildum gefa miðluninni vísindalegan grunn til þess að byggja á en síðan gefa þátttakendum tækifæri á að skoða lausnir og aðgerðir sem vinna gegn loftslagsvandanum út frá ólíkum hliðum. Fyrst og fremst viljum við að þátttakendur spyrji sig og aðra nýrra spurninga, hvetja til forvitni og fá þátttakendur til þess að tengja við sín eigin hugðarefni.

Leikurinn er gerður fyrir ungt fólk sem ýmist þjáist af loftslagskvíða eða er grunlaust og óáhugasamt um málefnið og allt þar á milli. Leikurinn miðar einnig á kennara í leit að nýjum leiðum til þess að fræða og fyrir vísindafólkið sem þarf stöðugt að koma til skila nýjum upplýsingum og uppgötvunum. Verkefnið snýst fyrst og fremst um frásagnarlistina í tengslum við loftslagsmál. Hvernig við getum nýtt möguleika nýrrar tækni eins og sýndarveruleika til þess að búa til heim þar sem við kveikjum forvitni og fáum fólk til þess að ræða lausnir og aðgerðir út frá ólíkum sjónarhornum og átta sig á mikilvægi þess að vinna saman. Leikurinn sem við sköpuðum minnir þátttakendur á þau ólíku hlutverk sem við gegnum gagnvart vandanum, hvor sem við upplifum okkur sem einstaklinga eða þjóðfélagsþegna, heimsborgara eða frumkvöðla. Leikurinn er í senn fræðandi, uppörvandi og valdeflandi fyrir alla þá sem vilja taka þátt.

Sjá: https://gagarin.is/

HEITI VERKEFNIS: Astrid XR

Verkefnisstjóri: Ásta Olga Magnúsdóttir

Styrkþegi: Gagarín ehf.

Tegund styrks:Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 49.818.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica