Atburðaannáll og rekstrargreind í skýinu - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.12.2017

Activity Stream, íslenskt sprotafyrirtæki, stofnað árið 2015, hefur með styrk frá Tækniþróunarsjóði og aðkomu fagfjárfesta þróað skýþjónustu sem fjöldi fyrirtækja hefur gert samning um að nota til að bæta rekstur sinn og þjónustu.

Fjöldi áskrifenda að kerfi Activity Stream
Stuðningur Tækniþróunarsjóðs lykill að framgangi lausnarinnar.

Activity-StLausnin gerir áskrifendum kleift að styðja fólk við ákvarðanatöku með því að sýna, greina og dreifa margvíðum gögnum i rauntíma. Notendaviðmót býður upp á bæði stöðluð mælaborð og stillanlega framsetningarmöguleika þannig að hægt sé að skoða, flokka, leita og bera saman gögn. Ásamt því hafa verið þróuð, í samstarfi við leiðandi aðila á markaði, ýmis líkön sem styðjast við gervigreind til þess að setja fram söluspár, auðga gögn, flokka þau frekar og merkja (e. Clustering & tagging) og setja fram ábendingar (e. observations) um hvað betur má fara.

Heiti verkefnis: Atburðaannáll og rekstrargreind í skýinu
Verkefnisstjóri: Stefán Baxter, Flaumur atburðagreining ehf. / Activity Stream ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 3 ár á tímabilinu 2014-2017
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Heimasíða: 
www.activitystream.com
Tilvísunarnúmer Rannís: 142323061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Lausnin, sem rekin er í skýinu, tryggir möguleika til hraðvaxtar bæði á fjölda viðskiptavina og því magni gagna sem fyrirtæki kjósa að sýsla með í sérstökum graf-gagnagrunni sem opnar nýja möguleika til að sníða og tengja gögn óháð uppruna þeirra. Lykilhönnunarforsendur taka mið af ströngustu kröfum um gagnaöryggi, persónuvernd og gagnsæi, auk þess að ávalt sé unnið í samræmi við lög og reglugerðir í þeim efnum.

Activity Stream er virkur þátttakandi í samfélagi um opinn hugbúnað. Staðlaðar gagnatengingar eru opnar á meðan gagnaframsetning er tilsniðin í samvinnu við þá aðila sem standa fremst á sviði gagnadrifins rekstrar í hverri þeirri atvinnugrein sem lausnin er aðlöguð að. Helstu markaðir fyrirtækisins eru á sviði afþreyingar, íþrótta og orkusparnaðar.

Meðal notenda sem unnið er að innleiðingu fyrir eru fjórðungur allra liða bandarísku NBA-deildarinnar auk fjölda annarra liða í NFL, MLB og U.S. Soccer-deildinni, auk risaleikvanga á borð við Staples Center í Los Angeles, Pepsi Center í Denver og stærstu afþreyingarmiðstöð Bandaríkjanna, T Mobile Arena í Las Vegas. Þá er í gangi undirbúningsvinna fyrir 21 leikhús á Broadway. Í Skandinavíu eru meðal notenda Tívoli í Kaupmannahöfn, Stavanger Konserthus, Folketeateret í Oslo og Malmø Live.

Activity Stream hóf nýlega samstarf við íslenska raforkumælaframleiðandann eTactica þar sem Activity Stream sér um alla gagnagreiningu og framsetningu mæligagna. Meðal notenda sem nú geta tekið upp kerfi Activity Stream eru Marel, CCP Games, Nói-Síríus, IKEA, Krónan og fleiri. Sótt er á nýja markaði í framhaldi af þessu samstarfi og þá einkum á smásölu og framleiðslumarkaði. Öll uppsetning og hönnun Activity Stream lausnarinnar miðar við að leysa úr læðingi þau gríðarlegu verðmæti sem liggja í stafrænum gögnum fyrirtækja og stuðla að jákvæðum ytri áhrifum, eins og minnkun útblásturs og betri nýtingu framleiðsluþátta.
Heimasíða: www.activitystream.com.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica