Augndropar í stað augnástungna við sjónhimnubjúg í sykursýki - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjórans

24.11.2016

Augndroparnir hafa þá sérstöðu fram yfir venjulega augndropa að koma lyfjum til bakhluta augans og geta þannig komið í staðinn fyrir lyfjagjöf með sprautunál inn í augað.

Oculis ehf. er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun nýrra augnlyfja byggt á einkaleyfavarinni tækni félagsins. Augndroparnir hafa þá sérstöðu fram yfir venjulega augndropa að koma lyfjum til bakhluta augans og geta þannig komið í staðinn fyrir lyfjagjöf með sprautunál inn í augað. Tækni Oculis gefur auk þess umtalsvert lengri virkni á yfirborði augans en mögulegt er með hefðbundnum augndropum.

Oculis hlaut haustið 2015 styrk frá Tækniþróunarsjóði. Þessi styrkur ásamt fyrri styrkjum frá sjóðum á vegum Rannís hafa verið gríðarlega mikilvægir í uppbyggingu Oculis og átt lykilþátt í því að koma félaginu á þann stað sem það er í dag.

Heiti verkefnis: Augndropar í stað augnástungna við sjónhimnubjúg í sykursýki
Verkefnisstjóri: Páll Ragnar Jóhannesson, Oculis ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 15 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153071-0611

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis nefnist DexNP og inniheldur dexamethasone í lyfjaferju Oculis. Unnið er að rannsaka og skrá lyfið við tveimur sjúkdómum. Fyrri sjúkdómurinn er sjónhimnubjúgur í sykursýki, þar sem DexNP verður fyrstu augndropar til meðhöndlunar á sjúkdómnum. Samþykkt lyf við sjónhimnubjúg í sykursýki krefjast öll að augnlæknir sprauti þeim inn í augað á skurðstofu. Einnig er DexNP rannsakað til að draga úr bólgu eftir augasteinsskipti þar sem DexNP er gefið einu sinni á dag í stað 3-4 á dag fyrir samþykkt lyf. Oculis vinnur auk þess að þróun fleiri lyfja, m.a. OC301, lyfi við þurrum augum.

Markmið þess styrks sem veittur var af Tækniþróunarsjóði var að styðja við undirbúning klínískra rannsókna á DexNP, en í því fólst m.a. gerð klínískrar rannsóknaráætlunar fyrir DexNP, markaðskönnunar til þess að leggja mat á ábendingar fyrir lyfið og rannsóknir til að styðja við gerð nýrra einkaleyfa. Þessum verkþáttum hefur verið lokið með árangursríkum hætti og fyrir lok styrktímabilsins samdi Oculis við fjárfesta um fjármögnun á félaginu, sem tryggir áframhaldandi þróun DexNP og annarra lyfja sem Oculis vinnur að. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica