Aukin samkeppnishæfni SagaMedica - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

19.9.2017

Markmið verkefnisins var að auka samkeppnishæfni SagaMedica, sér í lagi viðvíkjandi meginafurð fyrirtækisins, SagaPro. Þetta var einkum gert með rannsóknum og þróun.

Lokið er verkefninu „Aukin samkeppnishæfni SagaMedica“ sem unnið var með þriggja ára verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði.

Markmið verkefnisins var að auka samkeppnishæfni SagaMedica, sér í lagi viðvíkjandi meginafurð fyrirtækisins, SagaPro. Þetta var einkum gert með rannsóknum og þróun. Þróuð var aðferð til þess að flokka í sundur stöngla og lauf í skornu hráefni, og framleiðsluferli afurðarinnar var gerbreytt þegar hafin var frostþurrkun á þykkni, en frekari vinnsla óþurrkaðs þykknis hafði mörg tæknileg vandamál í för með sér. Þá voru innihaldsefni rannsökuð, en mörg fyrirferðarmikil innihaldsefni afurðarinnar voru óþekkt þegar verkefnið hófst. Nú eru þekkt öll helstu plöntuefni (secondary metabolites) og eru mjög áhugaverð efni þeirra á meðal. Í ljósi þessa var skoðað hráefni með tilliti til efnainnihalds og tökustaða, og leiddu þær rannsóknir í ljós verulegan breytileika viðvíkjandi flestum innihaldsefnum, sem býður upp á að hægt er að rækta með tilliti til ákveðinna efna.

Heiti verkefnis: Aukin samkeppnishæfni SagaMedica
Verkefnisstjóri: Steinþór Sigurðsson, SagaMedica ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 142352061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verulegt átak var unnið í gæðamálum, þ.e. skrásetningu og stöðlun framleiðslu- og mæliaðferða, og gerðar voru gæðalýsingar fyrir SagaPro og ýmis framleiðslustig þess, sem og SagaVita og SagaMemo. Þessi vinna er nauðsynleg fyrir öll samskipti við stærri viðskiptavini. Geithvannarfræ voru skoðuð og þá sér í lagi innihaldsefnið bisabolangelone, sem reyndist hafa mjög mikla slökunarvirkni á sléttvöðva. Rannsökuð voru áhrif á coxsackie B-veirur og staðfestar eldri niðurstöður um áhrif ætihvannarlaufaseyðis á þær, sem og áhrif ætihvannarlaufa- og vallhumalsseyðis á kvefveirur.

Hringurinn var þrengdur um virk efni, m.a. með aðstoð staðla, og munu þessar niðurstöður nýtast til frekari vöruþróunar á veiruvirkum afurðum. Loks voru rannsökuð slökunaráhrif SagaPro og innihaldsefna þess á þvagblöðru. Tvö innihaldsefni sýna þar mikla og áhugaverða virkni sem skoðuð verður nánar, og er hafinn undirbúningur að umsókn einkaleyfis vegna annars þeirra. Einnig hefur verið hafinn undirbúningur að einkaleyfisumsókn vegna þátta í framleiðsluferli SagaPro. Niðurstöður verkefnisins renna ennfremur styrkari stoðum undir markaðssetningu afurða fyrirtækisins.

Helsti afrakstur verkefnisins:

 • Aðferð til þess að flokka í sundur lauf og stilka fyrir þurrkun
 • Nýjar aðferðir í framleiðslu (frostþurrkun)
 • Kennsl borin á helstu "secondary metabolites" í SagaPro
 • Yfirsýn yfir breytileika efnasamsetningar í íslensku ætihvannarlaufi
 • Staðfesting á virkni ætihvannarlaufaseyðis á coxsackie B-veiru, sem og meiri vitneskja um virkefnið og staðfesting á veiruvirkni meðhöndlaðrar klórógensýru
 • Staðfesting á virkni ætihvannarlaufaseyðis og vallhumalsseyðis á kvefveiru
 • Þróun tveggja vara úr ætihvannarfræi
 • Skilgreining og skráning allra vinnuferla
 • Gæðalýsingar fyrir SagaPro, SagaVita og SagaMemo
 • Verklýsingar (SOP) fyrir hráefnisöflun, framleiðsluferla og starfsmannaþjálfun
 • Skráning mæliaðferða vegna framleiðsluferla
 • Skilgreining geymsluþolsmarkers fyrir SagaPro og milliafurðir, geymsluþolsákvörðun á grundvelli hans
 • Niðurstöður viðvíkjandi virkni tveggja innihaldsefna SagaPro til slökunar þvagblöðru
 • Grunnur að tveimur einkaleyfisumsóknum

 Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort og með hvaða hætti niðurstöður verkefnisins verða birtar, að öðru leyti en að sótt verður um a.m.k. tvö einkaleyfi.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica