Authenteq er farsíma-app sem sannreynir hvar þú varst, hvenær og hvað þú sást - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

18.2.2016

Um er að ræða nokkurs konar rafrænt vegabréf sem hægt er að nota í alþjóðaviðskiptum.

Authenteq hefur síðasta ár notið stuðnings frá Tækniþróunarsjóði við að þróa Authenteq-lausnina sem gerir fólki kleift að sannreyna að manneskja sem það á í viðskiptum við á netinu sé sú sem hún segist vera. Um er að ræða nokkurs konar rafrænt vegabréf sem hægt er að nota í alþjóðaviðskiptum og sparar bæði tíma og pening fyrir fólk og fyrirtæki ef til dæmis þarf að panta bílaleigubíl erlendis eða íbúð í gegnum Airbnb auk þess að sporna við svindli á netinu sem á sér stað í síauknu mæli.

Heiti verkefnis: Authenteq er farsíma-app sem sannreynir hvar þú varst, hvenær og hvað þú sást
Verkefnisstjóri: Kári Þór Rúnarsson, Authenteq ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 142524-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Síðasta ár var viðburðarríkt hjá fyrirtækinu enda var það valið til að taka þátt í Startupbootcamp sem er einn stærsti og virtasti viðskiptahraðall heims. Einnig var fyrirtækið valið eitt af leiðandi frumkvöðlafyrirtækjum á sviði meðhöndlunar persónuupplýsinga af CTIA sem eru samtök framleiðanda þráðlausrar tækni (The Wireless Association) og var fyrirtækið einnig valið 11. mest spennandi sprotafyrirtækið af fjárfestum á Slush-ráðstefnunni sem er stærsta tækniráðstefna Norður-Evrópu.

Þróun á fyrsta áfanga þjónustunnar er lokið og mun sala til viðskiptavina hefjast á þessu ári og hafa þegar fjölmörg fyrirtæki lýst áhuga á að nýta sér þessa tækni eins og t.d. Samsung og Paypal.

“Ljóst er að án stuðnings frá Tækniþróunarsjóði hefði róðurinn orðið gríðarlega þungur fyrir lítið sprotafyrirtæki sem vill marka sér spor á stórum alheimsmarkaði. Þetta er langt ferðalag sem er bæði tímafrekt og dýrt og við erum því afskaplega þakklát fyrir þann stuðning sem Tækniþróunarsjóður er að veita íslenskum sprotum.” segir Kári Þór Rúnarsson, framkvæmdastjóri Authenteq.

Afrakstur:

Frumgerð Authenteq-tækninnar sem notuð er til kynningar á lausninni fyrir tilvonandi viðskiptavini.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica