Birta-Gróðurhúsalausn - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

29.8.2022

ABC lights ehf. hefur hannað frumgerð Birtu; hátæknilausn sem framleiðir litrófs- og hitastýrt ljós fyrir gróðurhús. Hún byggir á öflugri kælitækni og því að nýta miðlægan ljósuppskrifabanka og stafrænt snjalltækjaviðmót til að gera ræktendum kleift að beita vísindalegri nákvæmni og deila ræktunarþekkingu með öðrum.

Birta – Gróðurhúsaljós hlaut sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs í haustúthlutun 2019. Verkefnið snérist um að hanna tölvustýrða hátæknilausn sem framleiðir litrófs- og hitastýrt ljós fyrir gróðurhús. Hún hentar hverjum sem er en miðast fyrst og fremst við þarfir atvinnuræktenda. Birta safnar ljósuppskriftum í miðlægan gagnabanka opinn öllum og ABC Lights ehf umbunar þeim fjárhagslega sem skapa vinsælar ljósuppskriftir. Hvert gróðurhús verður þannig að sívirkri tilraunastöð.

Logo tækniþróunarsjóðsHugmyndin spratt upp úr vangaveltum hvað gera mætti til að gera innanlandsræktun ábatasamari kost í landbúnaði. Gróðurhúsaræktun glímir nefnilega við fjölþættan vanda. Búnaðurinn er afskaplega orkufrekur en 30% - 40% kostnaðar hérlendis fer í lýsingu sem svo tapast að verulegu leyti í formi hitageislunar og ljóss á tíðnum sem ekki nýtast þeim plöntum sem rækta skal. Ódýrar háorku LED perur skemmast á 3-4 árum því miklar hitasveiflur skerða líftíma þeirra. Sjálfsögð nútímatækni svo sem netvæðing, sjálfstýring, tölvuvæðing og notkun miðlægs gagnagrunns er ekki vel innleidd. Myndast hefur vítahringur endurfjárfestingar í úreltri tækni sem er skaðleg umhverfinu, neytendum og í gróðurhúsaiðnaðinum.

Birta er hlaðin nýungum sem miða að því að hámarka alla jákvæða þætti LED lýsingar og útrýma neikvæðum þáttum. Mörg samverkandi kælikerfi tengjast sjálfvirku litófsstýrikerfi í lítilli en gríðaröflugri tölvu inni í hverju ljósi og saman margfalda þau líftíma LED peranna. Prófanir okkar á hitastýringum staðfesta að þær verða lykillinn að orkusparnaðnum sem gæti orðið 60-70%. Þær munu tryggja réttan styrk og litróf ljóssins og stuðla að heilbrigðu rakaskiptajafnvægi plantanna og langlífi búnaðarins. Ljósuppskriftir munu gera mönnum kleift að sérhanna bragð, lit og áferð afurða sinna með nákvæmum litrófs og tímastillingum og nettengd gróðurhús og miðlægur ljósgagnabanki mun gera ræktendum kleift að hanna og deila ljósuppskriftum fyrirvaralaust með heiminum öllum og eins að nota uppskriftir annarra í sín ljós. Innbyggður fjárhagslegur hvati til þátttöku ljósbankakerfinu örvar nýliðun og varðveitir þekkingu og þjónustuáskriftarform eins og þekkist úr tölvugeiranum mun örva nýliðun, lækka kostnað við endurnýjun og opna markaðinn upp á gátt.

Framtíðin er að íslenskur neytandi kaupi fullan poka af íslenskum tómötum ræktuðum í Tungunum sem bragðast eins og þeir hafi verið ræktaðir í Toskanahéraði fyrir helming þess sem þeir kosta í dag. Að grænmetisbóndi í Borgarfirði geti með appi í snjallsíma eða spjaldtölvu breytt lýsingunni í öllum sínum gróðurhúsum hvar sem hann kann að vera staddur. Framtíðin er að íslenskt grænmeti, blóm og ávextir verði enn samkeppnishæfari vörur og dragi úr verðsveiflum grænmetis með minna vægi orkuverðs. Framtíðin er að framlegð bænda batni og þeir geti endurfjárfest hraðar og með lægri kostnaði en áður og að hægt verði að draga verulega úr ríkisstyrkjum til garðyrkju innan fárra ára.

Verkefnið þakkar Tækniþróunarsjóði fyrir veittan stuðning til hönnunar hug- og vélbúnaðar og Matvælasjóði fyrir styrk til framkvæmdar ræktunartilrauna og vöruþróunar. Einnig er starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Tæknigarða þakkað einlæglega fyrir samvinnu og hjálp í frumkvöðlastarfi, Gróðrarstöðinni Storð fyrir samvinnuna og Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir aðkomu þeirra og stuðning.

Verkefnið heldur nú áfram í nýjan fasa. Þreifingar eru um fjármögnun og sótt verður um Vaxtarstyrk Tækniþróunarsjóðs á þessu ári. Virkni ljóssins hefur verið staðfest og þróunin er nú stödd í þriðju prótótýpu. Gangi forsendur upp er að vænta samstarfs við atvinnuræktendur á komandi ári og í kjölfar þess er Birta 1.0 svo væntanleg á markað 2024.

Framtíðin er að íslenskt grænmeti, blóm og ávextir verði enn samkeppnishæfari vörur og dragi úr verðsveiflum grænmetis með minna vægi orkuverðs. Framtíðin er að framlegð bænda batni og þeir geti endurfjárfest hraðar og með lægri kostnaði en áður og að hægt verði að draga verulega úr ríkisstyrkjum til garðyrkju innan fárra ára.

Sjá:  https://abclights.is/

HEITI VERKEFNIS: Birta – Gróðurhúsalausn

Verkefnisstjóri: Rúnar Þór Þórarinsson

Styrkþegi: ABC lights ehf.

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 20.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica