Dropi - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

25.8.2017

True Westfjords ehf. hefur í samvinnu við Matís þróað nýtt vinnsluferli fyrir lifrarlýsi þorskfiska. Þorskalýsið Dropi er framleitt með svokallaðri kaldvinnslu.

Furan-fitusýrur (F-fitusýrur) eru mjög öflug andoxunarefni og aförvarar stakeinda, sem verndar fjölómettaðar fitur. Þekkt er að neysla sjávarafurða minnkar líkur á kransæðasjúkdómum. Þetta hefur hingað til verið heimfært upp á fjölómettaðar omega-3-fitusýrur en hins vegar benda rannsóknir til þess að það sé neysla furan-fitusýra sem gæti skýrt jákvæð áhrif fiskneyslu. Þetta er vegna þess að furan-fitusýrur eru teknar upp á þeim stöðum í frumum þar sem þær geta komið í veg fyrir oxun á mismunandi lípíðum á sem áhrifaríkastan hátt. En þar sem F-fitusýrur finnast í öllum lifandi frumum og eru lífsnauðsynleg til þess að verja frumur okkar gegn oxuðum lípiðum vildi Em. Próf. Gerhard Spiteller meina að þær séu óuppgötvuð vítamín. En Gerhard Spiteller (1931-2017) var frumkvöðull furan-fitusýra, þar sem að hann vann við að byggingarákvarða furan-fitusýrur og rannsaka lífmyndun þeirra og uppgötvaði árið 1980 urofuransýrur sem umbrotsefni furan-fitusýra í þvagi.

Heiti verkefnis: Dropi
Verkefnisstjóri: Sophie Jensen, Matís ohf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2015-2016
Fjárhæð styrks: 26 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 153054061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

True Westfjords hefur í samvinnu við Matís þróað nýtt vinnsluferli fyrir lifrarlýsi þorskfiska. Þorskalýsið Dropi er framleitt með svokallaðri kaldvinnslu, en þá er hráefnið aldrei hitað upp fyrir 43°C. Við mikla hitun og vinnslu á lýsi geta nefnilega mikilvæg náttúruleg viðkvæm efni eins og t.d. furan-fitusýrur tapast og þess vegna hefur Dropi nýja eiginleika sökum nýs framleiðsluferils, auk rekjanleika vörunnar frá veiðum til neytenda. Engin vara er markaðssett með sambærilegum hætti í dag. Ávallt þarf þó að hreinsa þrávirk efni úr lýsi með virkum kolum og er það einnig gert við Dropa. Hins vegar geta náttúruleg viðkvæm andoxunarefni sem eru mjög áhugaverð einnig farið í þessari kolahreinsun.

Tilgangur verkefnisins sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði var að renna frekari stoðum undir hina nýju framleiðsluafurð sem fersklýsi (virgin cod liver oil) er og var heildarmarkmið verkefnis að skoða afdrif F-fitusýra í lýsi, fersklýsi og omega-3-perlum auk þess að reyna að finna nýjar uppsprettur af furan-fitusýrum.

Aðferð til mælingar á F-fitusýrum var sett upp hjá Matís í samvinnu við Walter Vetter við Hohenheim Háskólann í Þýskalandi. Magn furan-fitusýra var kannað í fjölda mismunandi lýsisafurða sem og í nokkrum mismunandi íslenskum sjávarafurðum.

Niðurstöðurnar gáfu til kynna að þorsklifrarlýsi sé aðaluppspretta furan-fitusýra, en að gæði hráefnisins skipti miklu máli þar sem að omega-3-perlur sem mældar voru innihéldu mun minna af furan-fitusýrum. Niðurstöðurnar sýndu líka að eldisbleikja og –lax sem mæld voru í verkefninu innihéldu mikið magn F-fitusýra. Hugsanlega má reka það til hás hlutfalls furan-fitusýra í fóðri eldisfiska og sýnir að hráefnisgæði eru mikilvægasti þáttur vinnsluferils og skiptir mestu máli varðandi varðveislu F-fitusýra. 

Afrakstur verkefnisins

  • Aðferð til mælingar á F-fitusýrum hefur verið sett upp hjá Matís. Aðferðin hefur verið bestuð fyrir 5 efni.
  • Áhrif kolasíunar á F-fitusýrur hefur verið athuguð með magngreiningu á efnunum í Dropa fyrir og eftir kolasíun og virðist styrkurinn haldast óbreyttur.
  • Könnun á styrk F-fitusýra í 11 mismunandi sjávarafurðarsýnum var framkvæmd. Ætlunin var að kanna magn F-fitusýra í vannýttum sjávarafurðum til þess að reyna að finna nýjar uppsprettur furan-fitusýra og þróa aðferð til að hreinsa þær úr hráefninu og bæta í þorskalýsi. Hins vegar þegar heildarmagn furan-fitusýra var skoðað í samanburði við Dropa-sýnið var nokkuð ljóst að lifrarlýsi er aðal uppsprettan fyrir furan-fitusýrur.
  • Markaðs- og söluáætlun hefur verið tekin saman þar sem mat hefur verið gert á arðsemi- og hagkvæmni fyrir framleidda vöru eftir landsvæðum og vörutegundum.
  • Sótt hefur verið um patent -  “Method for producing fish oil“ (case no P10304IS00).
  • Handrit að grein er í skrifum – “Furan fatty acids from marine sources” fyrir Journal of Aquatic Food Product Technology.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica