Eldfjallaböð - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

25.9.2020

Aska spa ehf. hefur undanfarin tvö ár unnið að þróun og hönnun eldfjallabaða þar sem unnið er með íslenska eldfjallaösku. Áskoranir verkefnisins hafa m.a. snúist um nýtingu öskunnar í böðunum sjálfum, vinnslurás og eðli leðjunnar sem askan, vatn og fleiri efni mynda í sameiningu. 

Niðurstöður verkefnisins gefa góð fyrirheit um að hægt sé að nýta ösku í leðjuböð með árangursríkum hætti. Þær verða nýttar í viðræðum við fjárfesta auk þess sem þegar er hafin vinna við frekari rannsóknir. Forsvarsmenn Aska spa ehf. hafa lagt fram nýja umsókn í Tækniþróunarsjóð í styrkflokknum Vexti sem vonast er til að geti stutt við frekari rannsóknir.

Logo tækniþróunarsjóðs

Verkefnið er á viðkvæmu þróunar- og uppbyggingarstigi og í ljósi samkeppnissjónarmiða verða niðurstöður rannsókna- og þróunar ekki kynntar almenningi í smáatriðum að svo stöddu.

Vonast er til þess að baðstaður Aska spa ehf. muni geta skapað tugi heilsársstarfa og aflað þjóðarbúinu umtalsverðra gjaldeyristekna á næstu árum. Sú efnahagslægð sem nú ríkir og óvissa í ferðaþjónustu dregur ekki úr krafti verkefnisins heldur hvetur forsvarsmenn þess til dáða. Aska spa ehf. gerir ráð fyrir að baðstaður fyrirtækisins komi inn á markaðinn á hárréttum tíma til að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi á nýjan leik.

Heiti verkefnis: Eldfjallaböð
Verkefnisstjóri: Sveinbjörn Hólmgeirsson
Styrkþegi: Aska Spa ehf.
Tegund styrks: Sproti
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica