Erfðamörk notuð við úrval á íslenskum kynbótableikjum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

30.6.2016

Meginmarkmið þessa verkefnis var að kanna möguleika á notkun erfðamarka við kynbætur fyrir auknum vexti, kynþroskaaldri og holdgæðum bleikju.

Greining á erfðamörkum getur aukið árangur af kynbótum á bleikju.

Unnið hefur verið að kynbótum á bleikju á Hólum síðan 1992 og notaðar til þess hefðbundnar kynbótaaðferðir. Á undanförnum árum hafa hins vegar örar framfarir í sameindaerfðafræði á bætt við nýjum aðferðum við kynbætur í landbúnaði, þar á meðal erfðamörk sem notuð eru til að finna tengsl gena og ýmissa mikilvægra eiginleka plantna og húsdýra.

Heiti verkefnis: Erfðamörk notuð við úrval á íslenskum kynbótableikjum
Verkefnisstjóri: Helgi Thorarensen, Háskólanum á Hólum
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 17,89 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121458-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Meginmarkmið þessa verkefnis var að kanna möguleika á notkun erfðamarka við kynbætur fyrir auknum vexti, kynþroskaaldri og holdgæðum (fituinnihaldi og holdlit) bleikju. Vaxtarhraði og kynþroskatíðni var mæld hjá 44 einstaklingum úr 50 systkinahópum jafnframt því sem beitt var sameindaerfðafræðilegum aðferðum til þess að leita að erfðamörkum sem tengdust þessum eiginleikum. Tvö erfðamörk sem tengjast hraðari vexti fundust, en ekki fundust erfðamörk sem tengjast kynþroskaaldri. Einnig voru holdgæði (fita og litur) mæld í sex systkinahópum. Ekki fundust erfðamörk fyrir þessum eiginleikum, en erfðamörk fundust sem tengjast bættri flakanýtingu. Þessar niðurstöður gefa góða von um að hægt verði að nýta erfðamörkin í bleikjukynbótaverkefninu. Til þess þarf þó að vinna frekari þróunarvinnu. Að öllum líkindum er hægt að auka árangur af kynbótum á bleikju með því að nota erfðamörkin samhliða hefðbundnum aðferðum við kynbæturnar.

 Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  • Lokaskýrsla til Tækniþróunarsjóðs.
  • Handrit að grein um niðurstöður verkefnisins er í undirbúningi til birtingar í ritrýndu tímariti
  • Handrit að grein um íslenska bleikjukynbótaverkefnið er í undirbúningi til birtingar í ritrýndu tímariti

Þetta vefsvæði byggir á Eplica