Hallandi beingarðs- og flakaskurður er byggir á þrívíðri röntgengreiningu - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

18.9.2015

Mikilsverður árangur náðist í verkefninu og eru í dag alls 5 sjálfvirkar beinaskurðarvélar í fullri notkun við skurð á þorski og öðrum hvítfiski á Íslandi og í Noregi.

 Valka hefur á undanförnum árum unnið mikla þróunarvinnu í tengslum við sjálfvirkan beinaskurð á fiskflökum. Mikilsverður árangur hefur náðst og eru í dag alls 5 sjálfvirkar beinaskurðarvélar í fullri notkun við skurð á þorski og öðrum hvítfiski á Íslandi og í Noregi. Til viðbótar þeim vélum hafa 4 vélar verið seldar sem koma til afhendingar á næstu mánuðum. Þessar vélar eru að skila fiskvinnslunum miklum ávinningi í formi bættrar nýtingar, betri hráefnismeðhöndlunar og nákvæmari skurði en áður hefur sést.

Heiti verkefnis: Hallandi beingarðs- og flakaskurður er byggir á þrívíðri röntgengreiningu
Verkefnisstjóri: Helgi Hjálmarsson, Völku ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2014
Fjárhæð styrks: 30 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 120901-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Ljóst er að þessi árangur hefði ekki náðst ef ekki hefði komið til frábærs samstarfs við framsækin fiskvinnslufyrirtæki hér á landi og hefur HB Grandi stutt sérstaklega vel við bakið á verkefninu með því að koma að því á fyrstu stigum í hugmyndavinnunni en næsta skref var svo að taka fyrstu vélina í notkun við skurð á karfaflökum og loks var fyrsta vélin sem nýtt var í skurð á þorskflökum tekin í notkun í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi um mitt ár 2013. Þá hjálpaði myndarlegur stuðningur frá Tækniþróunarsjóði og AVS-sjóðnum verkefninu mikið og ljóst er að sá stuðningur hafði mikið að segja um að þróunarvinnan gekk eins hratt og vel fyrir sig og raun varð á.

Þróunarvinnunni er síður en svo lokið þó svo að hinu þriggja ára þróunarverkefni sé lokið. Það var því mikill fengur að því fyrir verkefnið að fá alls 3,3 mNOK styrk frá samtökum fiskvinnslustöðva í Noregi (FHF) og Innovation Norge um mitt ár 2014. Í því verkefni hefur mikil áhersla verið lögð á heildarvinnslulínuna auk vinnu við að auka enn frekar nákvæmni í skurðinum. Það verkefni er einnig í samvinnu við öflug fyrirtæki í iðnaðinum bæði hér á Íslandi og í Noregi sem mun auka lýkur á árangri til muna.

Afrakstur verkefnisins:

Lykilafrakstur verkefnisins er sjálfvirk beinaskurðarvél sem hefur nú verið seld í alls 8 eintökum en búið var að selja eina vél áður en verkefnið hófst. Sölu á hverri vél fylgir svo veruleg sala á öðrum búnaði einnig. Þá er búið að leggja grunn að hugbúnaði og vélbúnaði sem mun skila enn betri nýtingu og er reiknað með að þær viðbætur verði í vél sem afhent verður á haustmánuðum. Sótt hafði verið áður um eitt einkaleyfi í tengslum við verkefnið og sótt var um eitt einkaleyfi til viðbótar meðan á verkefninu stóð.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica