Herkænskuleikurinn Starborne – alþjóðleg markaðssetning og uppbygging markaðsinnviða - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.12.2016

Uppbygging innviða markaðsstarfs og markaðssetningar á Starborne-leiknum með hjálp Tækniþróunarsjóðs hefur leitt til þess að hann er orðinn nokkuð þekktur og fjölmargir spilarar bíða spenntir eftir því að hann verði gefinn út.

Solidd Clouds er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem er að framleiða tölvuleikinn Starborne (áður PROSPER) fyrir alþjóðlegan markað. Starborne er þrívíður herkænskuleikur sem gerist í geimnum og er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara yfir netið, en hver leikur tekur um sex mánuði. Leikmenn byrja með eina geimstöð hver, á risastóru korti með 1,5 milljónir reita. Spilarar keppast um að auka framleiðslugetu sinna stöðva, svo þeir geti byggt sem stærstan flota, en hann má svo nota til að leggja undir sig stærra svæði. Leikmenn geta myndað bandalög sem berjast um yfirráð og endar leikurinn á því að eitt bandalag stendur uppi sem sigurvegari. Leikurinn er ókeypis en hægt er að kaupa spilapeninga, sem nýta má m.a. til að flýta framleiðslu. Markaðurinn fyrir þessa gerð leikja fer hratt vaxandi, en velta síðasta árs var um milljarður dala. Starborne byggir á þaulreyndum og vel heppnuðum leikreglum en kemur þó með ýmsar nýjungar eins og t.d. nýtt bardagakerfi og einstakt viðmót sem veitir spilurum mun betri sýn yfir stöðuna á korti. Leikurinn er smíðaður í Unity sem mun auðvelda framleiðendum að gefa hann einnig út fyrir IOS og Android.

Heiti verkefnis: Starborne (áður PROSPER) – markaðssetning
Verkefnisstjóri: Tómas Sigurðsson, Solid Clouds ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153342-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Framleiðsla leiksins hófst um haustið 2013. Viðskiptaáætlun félagsins varð í þriðja sæti í Gullegginu 2014. Framleiðsla leiksins hefur síðan þá verið styrkt af Tækniþróunarsjóði, sem hefur haft mikil áhrif á framgang leiksins og stutt við aðra fjármögnunaröflun félagsins. Leikurinn verður gefinn út á næsta ári og því markaðsstarf í fullum gangi. Markaðssetning tölvuleikja í dag fer að mestu leyti fram í gegnum greinar á vefmiðlum og á þetta sérstaklega við um þá tegund leikja sem Starborne tilheyrir. Markaðsrannsóknir benda til þess að stærstur hluti spilara, tekur þátt í slíkum leikjum eftir að hafa lesið um þá á netinu eða heyrt af þeim frá vinum og kunningjum. Þar sem framboð tölvuleikja er í dag meira en nokkru sinni áður, er þeim mun mikilvægara að ná skilaboðunum til áhugasamra spilara.

Haustið 2015 hlaut Solid Clouds markaðsstyrk Tækniþróunarsjóðs til að styðja við markaðsstarf félagins. Heiti verkefnisins var „PROSPER – markaðssetning“ en heiti leiksins var á samningstímabilinu breytt í Starborne. Styrkveiting Tækniþróunarsjóðs hefur gert það að verkum að hægt var byggja upp vefsetur fyrir Starborne auk þess að framleiða auglýsinga- og kynningarmyndbönd. Styrkurinn var einnig nýttur til að koma leiknum á framfæri á tölvuleikjaráðstefnum, fá umfjallanir um leikinn í helstu vefmiðlum og byggja upp samfélag spilara í kringum alfa prófanir.

Markaðsstarf félagsins byggist að miklu leyti á vefsetri leiksins, en á samningstímabilinu var alhliða vefsetur smíðað, þar sem áhugamenn um leikinn geta séð auglýsingamyndbönd um leikinn, viðtöl við framleiðendur leiksins og að lesið sögur um heiminn. Auk þess er búið að koma upp spjallborðum þar sem spilarar geta spurt spurninga og haft samskipti við hvern annan og starfsmenn Solid Clouds.

Solid Clouds sótti á samningstímabilinu sex ráðstefnur víðsvegar um heiminn og nú síðast í nóvember var félaginu boðið ásamt einu öðru íslensku sprotafyrirtæki að verða fulltrúi Íslands í sérstakri Nordic Showcase kynningu, á Slush tækniráðstefnunni í Finnlandi. Á þessum ráðstefnum hefur leikurinn verið kynntur fyrir áhugasömum spilurum og fjölmiðlafólki. Afrakstur þess eru 21 grein um leikinn og má í því sambandi sérstaklega nefna burðargrein frá því í nóvember í Gamesindustry.bizsem er eitt af leiðandi leikjatímaritum heims.

Umfjallanir um leikinn hafa skilað yfir 8.000 umsóknum um þátttöku í alfa-prófunum, en núverið lauk fjórðu prófun sem hófst í október 2016. Í þeirri prófun var um 600 spilurum hleypt inn og var leikið í rúmlega tvo mánuði. Nú þegar er að myndast öflugt samfélag spilara sem hafa prufað leikinn og/eða eru mjög áhugasamir um hann, en þess má geta að þegar félagið hélt hóf fyrir spilara í síðustu alfa-prófun, töldu nokkrir erlendir spilarar ástæðu til þess að leggja á sig ferðalag til landsins vegna þessarar kvöldstundar.

Uppbygging innviða markaðsstarfs og markaðssetningar á leiknum með hjálp Tækniþróunarsjóðs hefur leitt til þess að Starborne-leikurinn er orðinn nokkuð þekktur og fjölmargir spilarar bíða spenntir eftir því að hann verði gefinn út. Þar sem flestir spilarar slíkra leikja, hefja spilun eftir að hafa heyrt um hann frá öðrum spilurum, þá er þetta lykilforsenda fyrir velgegni félagsins.

Skrá yfir umfjallanir um Solid Clouds og Starbome:
Von er á greinum um Solid Clouds og Starbome í Gamesauce.biz
Nýjast efst.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica