Hönnun og þróun hálsþjálfa - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.9.2015

Afrakstur verkefnisins er m.a. forrit og skynjarar sem meta á hlutlægan hátt hreyfingar hálshryggjar og virkni vöðva í mismunandi fösum hreyfingar.

Hönnun  og þróun hálsþjálfa snerist um þróun búnaðar til þess að meðhöndla  hálshryggjaráverka  sem nýtast myndi á öðru stigi þjálfunar eftir hálsmeiðsli eða álag.  Lokið hefur verið við gerð frumtýpu ásamt forriti sem stýrir hreyfingum höfuðs og háls í lóðréttu hreyfiplani.

Heiti verkefnis: Hönnun og þróun hálsþjálfa
Verkefnisstjóri: Einar Einarsson, Kine ehf. – Hreyfistjórn ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2 ár á tímabilinu 2011-2013
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110415-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Einnig var í verkefninu þróunarvinna á þráðlausum þrýstinema sem nýtast myndi við slíka þjálfun og gefa niðurstöður um virkni vöðvavinnu þegar hann er notaður með yfirborðsvöðvariti.  Forrit sem metur vöðvavirkni og þrýsting í mismunandi fösum hálshreyfinga hefur verið smíðað.

Styrkur verkefnisins var nýttur til að klára frumtýpu af  hálsþjálfanum og  við gerð viðskiptaáætlunar.

Til að skoða fýsileika verkefnisins var unnið í öflun viðskiptasambanda á erlendum markaði og einnig leitað eftir samstarfi við erlenda fagaðila á sviði endurhæfingar.

Niðurstöður benda til þess að þörf sé fyrir endurhæfingar og mælitæki á öðru stigi hálsþjálfunar.

Verkefninu verður haldið áfram með það að markmiði að stofna alþjóðlegt fyrirtæki á markaði í Skandinavíu og Mið-Austurlöndum innan árs.

Listi yfir afrakstur verkefnisins:

  • Fullþróuð frumtýpa með stýrikerfi.
  • Forrit og skynjarar sem meta á hlutlægan hátt hreyfingar hálshryggjar og virkni vöðva í mismunandi fösum hreyfingar.
  • Markaðsskýrsla og viðskiptáætlun.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica