Island Harvest, vatna- og sjávarsláttuvélin Asco - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.12.2016

Með vatna- og sjávarsláttuvélinni Asco er þangið slegið en ekki slitið upp með rótum. Það hefur því möguleika á að vaxa á ný.  

Asco Harvester ehf. framleiðir sjávarsláttuvél (e. aquatic weed harvester) sem slær margar tegundir af þangi og öðrum sjávargróðri á sjálfbæran hátt. Sjálfbærnin er falin í því að þangið er slegið, en ekki slitið upp með rótum og neðsti hluti plöntunnar skilinn eftir. Þangið hefur því möguleika á því að vaxa aftur svipað nýslegnu grasi, ólíkt því sem myndi gerast ef rætur þess yrðu slitnar upp. Asco er auk þess hreinsunarprammi sem er útbúinn til að hreinsa upp rusl úr sjónum. Flestir hafa heyrt um umhverfisvandamál eins og í Plasthafinu (e. The Plastic ocean) ásamt því að rusl berst að ströndum landa vegna náttúruhamfara. Einnig er aukið vandamál með sjávargrös sem vaxa út frá mengun frá verksmiðjum og landbúnaði víða erlendis. Þennan gróður er hægt að fjarlægja með vélum Asco. Asco Recycle virkar þannig að hann safnar saman rusli eða öðrum gróðri á yfirborði sjávar, ásamt því að ná 1,9 m niður fyrir sjávarmál. Ruslið fer svo á færiband og þaðan í stóra sekki sem losaðir eru í ból þegar þeir fyllast.

Heiti verkefnis: Island Harvest, vatna- og sjávarsláttuvélin Asco
Verkefnisstjóri: Anna Ólöf Kristjánsdóttir, Asco Harvester ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 7 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153552-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið Asco Harvester ehf. og stefna Asco er að bæta og þróa fyrirliggjandi tækni sem notast er við í dag. Það hefst með því að kortleggja þá hnökra sem á öðrum vélum eru og hafa það til hliðsjónar með nýrri og endurbættri hönnun. Sú rannsóknar- og þróunarvinna sem þegar hefur átt sér stað hefur gefið hagnýtar niðurstöður. Þær fást með því fyrst og fremst að nútímavæða drifbúnað, sláttuaðferð, vélbúnað, glussakerfi, vinnuöryggi, lægri viðhaldskostnaði og fleira.

Í byrjun næsta árs er áætlað að frumgerð Asco Viking, Sigri 9057, verði sjósettur í Stykkishólmi. Þetta ár hefur verið unnið að smíði hans og er óhætt að segja að hún hafi gengið vonum framar. Það verður því áhugavert að byrja þróun í sjó og við slátt. Frumgerð Asco er þannig hönnuð og smíðuð að hann er hægt að nota til þróunar á öðrum tegundum og búnaði. Er það von Asco að sú tækni og þróun sem hér er að verða til, nýtist við slátt á afurð sem áður er ónýtt ásamt því að auka vinnuöryggi, nýtingu og sjálfbærni.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica