Leviosa – Ný nálgun við sjúkraskráningu - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

29.9.2022

Leviosa hefur á síðustu tveimur árum þróað nýja og nútímalega nálgun við sjúkraskráningu. Heilbrigðisstarfsmenn verja í dag allt að 70% af sínum vinnudegi fyrir framan tölvuskjáinn að skrá upplýsingar, gera beiðnir, skrifa vottorð og sinna almennri sjúkraskráningarvinnu. 

Markmið Leviosa eru skýr, það er að stytta þennan skráningartíma og bjóða lausn sem ýtir undir skilvirkni og bætta þjónustu. Heilbrigðiskerfið á Íslandi á mikið undir, nánast daglega eru fluttar fréttir af neyðarástandi heilbrigðisstofnanna sem eru að bresti komnar. Skortur á heilbrigðisstarfsmönnum hefur aukist og álagið á kerfinu ýtt undir kulnun í starfi með tilheyrandi veikindaleyfum og uppsögnum heilbrigðisstarfsmanna.

Logo tækniþróunarsjóðsVið upphaf styrks var hugbúnaðarlausn Leviosa á frumstigi og prófanir nýhafnar. Á tveimur árum hefur mikil framþróun átt sér stað og í dag er Leviosa fullbúin lausn tilbúinn til innleiðingar á heilbrigðisstofnanir. Leviosa nýtir nútímalegt tækniumhverfi til að bjóða þannig notendum eiginleika sem áður hefur ekki staðið til boða. Eiginleikar Leviosa byggja m.a. á deilihagkerfi sniðmáta til að einfalda og staðla þjónustu heilbrigðisveitenda til þeirra sem sækja hana. Með því móti má einfalda skráningarvinnu, fækka mistökum og safna jafnframt verðmætum gögnum. Þá býður Leviosa upp á ýmsar flýti aðferðir við skráningarvinnu heilbrigðisstarfsmanna, svo sem; raddgreiningu, flýtitexta og snögga afgreiðslu viðhengja. Leviosa býr yfir öflugu samskiptatóli sem getur talað við undirliggjandi kerfi án mikilla vandræða og þannig samþættað skráningu úr mörgum kerfum á einn stað. Innviðir hugbúnaðarlausnarinnar eru sterkir og tilbúnir til að takast á við frekari skölun. Leviosa hefur farið í gegnum einfaldar notendaprófanir sem hafa skilað vænlegri niðurstöðu. Leviosa fer í prófun í raunumhverfi í haust á stærstu heilbrigðisstofnunum landsins og eru miklar vonir bundnar við lausnina. Notendaprófanir hafa sýnt fram á það að mikill ábati getur hlotist af lausninni á landsvísu. Sem dæmi þá gæti full innleiðingu á Landspítala sparað allt að 900.000 klst heilbrigðisstarfsmanna ári, en það samsvarar sér í 450 stöðugildum, í dag starfa hátt í 2.700 heilbrigðisstarfsmenn á Landspítala.

Leviosa hefur hlotið framhaldsstyrk hjá Tækniþróunarsjóði sem verður nýttur til að smíða heildstætt sjúkraskráningarkerfi í kringum skráningarhluta Leviosa sem er núna tilbúinn til notkunar. Þá er frekari frétta að vænta af aðkomu fjárfesta til ýta frekar undir hugbúnaðarþróun Leviosa til að koma vörum fyrirtækisins á innlendan markað sem allra fyrst. Leviosa stefnir á erlendan markað 2023. Frekari upplýsingar og fréttir af Leviosa er hægt að nálgast á vefsíðu fyrirtækisins Leviosa.is og öllum helstu samfélagsmiðlum undir “Leviosa”.

HEITI VERKEFNIS: Leviosa – Ný nálgun við sjúkraskráninguVerkefnisstjóri: Ragnheiður Þórarinsdóttir

Styrkþegi: Fleygiferð ehf (Leviosa)

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 49.779.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI









Þetta vefsvæði byggir á Eplica