Litarefni í sæbjúgum - verkefni lokið

Einangrun og nýting á verðmætum litarefnum úr vannýttu sjávarfangi (ASTA).

26.1.2018

Meginmarkmið ASTA-verkefnisins var að kanna möguleika þess að vinna verðmæta vöru á formi litarefna úr slógi sæbjúgna.

Fréttatilkynning verkefnisstjóra:

Meginmarkmið ASTA-verkefnisins var að kanna möguleika þess að vinna verðmæta vöru á formi litarefna (astaxanthin) úr slógi sæbjúgna. Að byggja upp þekkingargrunn sem nýta má til frekari ákvarðanatöku, hvort slík vinnsla geti hugsanlega verið ábatasöm. Til að ná því markmiði var reynt að varpa ljósi á magn litarefna í slógi sæbjúgna. Einnig var upplýsingum safnað um markaðsvirði litarefna og aðgengi að hráefni (slóg frá vinnslu sæbjúgna).

Heiti verkefnis: Litarefni í sæbjúgum - Einangrun og nýting á verðmætum litarefnum úr vannýttu sjávarfangi (ASTA)
Verkefnisstjóri: Albert K. Imsland, Akvaplan niva AS, útibú á Íslandi
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2 ár, á árunum 2014-2017
Fjárhæð styrks: 12 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 142592061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Nýnæmi þessa verkefnis snýr að því að vinna verðmæta afurð úr vannýttu hráefni. Niðurstöður forverkefnis benda til að finna megi umtalsvert magn litarefna í slógi sæbjúgna einkum í kynkirtlum dýranna. Í frostþurrkuðum sýnum af kynkirtlum sæbjúgna mældust um 1,68 mg/g (miðað við þurrvikt) af litarefnum. Byggt á þessum niðurstöðum, mögulegu aðgengi að hráefni og markaðsúttekt gæti verðmæti litarefna sem unnið væri úr slógi sæbjúgna sem féll til árið 2016 numið allt að 1,4 milljörðum. Frekari rannsókna er þó þörf á magni og gerðum litarefna í sæbjúgum. Við ályktum að sú nálgun að vinna litarefni úr slógi sæbjúgna sé hugmynd sem vert er að skoða nánar. Frekari rannsóknir ættu að beinast að því að greina nánar magn og tegundir litarefna. Einnig þyrfti að skoða betur mögulegt aðgengi að hráefni einkum þar sem nokkur óvissa er um veiðanlega stofnstærð sæbjúgna við Ísland.

Afrakstur:

Edmondo Steinar De Santis. 2017. Mæling á astaxanthíni í sæbjúgum og mat á því hvort arðbært sé að hefja magnbundna vinnslu á efninu úr dýrunum. MSc-ritgerð við Háskólann á Akureyri við viðskipta og raunvísindasvið.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica