Ljósvarpa - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

29.6.2016

Ljósvarpa: Byltingarkennd aðferð við togveiðar.

Í verkefninu Ljósvarpa, sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði, var lokið við smíði og sjóprófunum á nýrri tegund togveiðafæra sem notar ljósgeisla til að smala fiski inn í smáa togvörpu.  Mótstaða vörpunnar í togi er mun minni en hefðbundinna togavarpa og olíunotkun því umtalsvert lægri.  Ljósvarpan snertir ekki sjávarbotn heldur svífur rétt yfir botninum og notar ljósveggi til að lyfta fiski upp af botni og inn í vörpuna.  Tölvustýrt hæðarstýri og togspil vinna saman við að halda vörpunni í óskahæð frá botni.  Í sjóprófunum á rannsóknaskipinu Dröfn RE 35 var sýnt fram á að hægt er láta vörpuna fylgja breytilegum botni mjög nákvæmlega með fastri hæð frá botni. 

Heiti verkefnis: Ljósvarpa
Verkefnisstjóri: Geir Guðmundsson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Þátttakendur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hafrannsóknastofnun, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. og Fjarðanet hf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 19,093 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121512-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Í verkefninu voru þróuð og smíðuð tölvustýrð neðansjávarljós þar sem hægt er að breyta stefnu og hreyfingu á ljósgeisla í hverju ljósi frá brú skips, auk þess að breyta ljósstyrk og ljósamynstri.

Ljosvarpa-jun2016

Önnur mikilvæg tæknibylting tengist háhraða samskiptum við mæli og stjórntæki neðansjávar með tilkomu togkapals með ljósleiðurum og rafleiðurum.  Hingað til hafa mælitæki veiðafæra þurft að reiða sig á hljóðtækni sem hefur mjög takmarkaða gagnaflutningsgetu.  Með Ethernet háhraða netsamband milli skips og veiðafæris, opnast í fyrsta sinn möguleiki á beinum kvikmyndasendingum frá veiðafæri, þannig að skipstjórnendur geta samstundis fylgst nákvæmlega með því sem er að gerast neðansjávar.  Auk þess opnar þetta möguleika á mun flóknari og betri mælitækjum í veiðafærum sem gefa skipstjórnendum gleggri mynd af veiðunum og mögulegri stýringu á veiðafærum.

Áður hafa Tækniþróunarsjóður, AVS, atvinnu og nýsköpunarráðuneytið, Átak til atvinnusköpunar, Vaxtasamningur Vestfjarða og fleiri styrkt verkefnið á fyrri stigum, þar sem m.a. var sýnt fram á að fiskur bregst við ljósgeislum á svipaðan hátt og við netum og gröndurum botnavarpa, og að hægt er að smala fiski inn í togvörpu með ljósgeislum. Þetta verkefni er framhald af fyrri verkefnum sem hófust formlega 2003.

Veiðitilraunir með Ljósvörpuna eru þegar hafnar og hafa fyrstu niðurstöður verið kynntar að hluta til opinberlega á Íslensku sjávarútvegssýningunni. Markmiðið er að halda veiðitilraunum áfram með Ljósvörpuna til að afla betri þekkingar á því hvernig ljósgeislaform og -mynstur hentar best fyrir framtíðar ljóstogveiði.

Þátttakendur hafa stofnað sprotafyrirtækið Optitog ehf. til að þróa Ljósvörputæknina áfram og koma á markað sem framtíðar orkusparandi og umhverfisvæn veiðafæri fyrir alþjóðlegan veiðafæramarkað.

Þátttakendur í verkefninu voru: Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hafrannsóknastofnun, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. og Fjarðanet hf., auk fjölmargra innlendra og erlendra tæknifyrirtækja og sérfræðinga sem lögðu hönd á plóg og/eða útveguðu tækni til notkunar í Ljósvörpu. 

Afrakstur verkefnisins

  • Fullbúið veiðafæri til prófana á togveiðum með ljósgeislum sem hægt er að stýra í nákvæmri hæð frá botni. 
  • Togkapall og togspil með raf- og ljósleiðara, sem opnar nýja möguleika á stýringu veiðafæris og beinni myndsendingu frá botni.
  • Neðansjávarljós þar sem hægt er að stýra hverju ljósi nákvæmlega varðandi stefnu, styrk og hreyfingu ljósgeisla ásamt því að forrita mismunandi flókin ljósamynstur á einfaldan hátt.
  • Evrópskt og kanadískt einkaleyfi á tækni og veiðarfæri hefur verið veitt. Fleiri einkaleyfisumsóknir í landsbundu ferli.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica