Lokbrá / Mína og Draumalandið - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

27.10.2022

Fyrirtækið NúnaTrix ehf var stofnað eftir að verkefnið okkar, Mína og Draumalandið, hlaut styrkveitingu Tækniþróunarsjóðs árið 2019. Við sérhæfum okkur í þróun og nýsköpun innan sjúklingafræðslu og markmið okkar er að efla heilsulæsi fólks á öllum aldri með gagnvirkum kennslutölvuleikjum okkar og miðlum fræðslu í gegnum leik með nýjustu tækni.

Nú þegar höfum við búið til einn leik, Mína og Draumalandið, sem er kennslutölvuleikur ætlaður börnum á aldrinum fjögra til átta ára sem gangast undir fulla svæfingu, en fullorðnir geta einnig nýtt sér leikinn. Sömuleiðis er auðveldlega hægt að nota leikinn sem fræðsluefni bæði í leik og grunnskólum.Logo tækniþróunarsjóðs

Tilgangur leiksins er að undirbúa börn sem eru á leið í heilbrigðistengda meðferð sem gerð er í svæfingu t.d. tannaðgerðir, skurðaðgerðir eða rannsóknir undir það sem í vændum er, með fræðslu og kennslu í bjargráðum til að takast á við kvíða og ótta. Þörf er slíkri fræðslu því vel er þekkt að börn sem þurfa að gangast undir svæfingu sýna oft mikinn kvíða sem getur haft margvísleg neikvæð áhrif eftir aðgerð.

Tölvuleikir eru góð leið til fræðslu og þjálfunar. Markmiðið með þróun leiksins var að hanna úrræði sem fræðir börn og kennir þeim að takast á við kvíða og hræðslu og er byggt á gagnreyndri þekkingu og tækni og á að vera skemmtilegur!

Leikinn geta börn spilað með eða án aðstoðar foreldra sinna nokkrum dögum áður en kemur að svæfingunni. Þau læra um undirbúning t.d. föstu á mat og drykk og fara í bað kvöldinu áður og kynnast umhverfi á spítalanum. Stutt myndbönd voru búin til í samstarfi við börnin þegar leikurinn var hannaður og börnin sögðu frá því sem þeim fannst mest skrýtið eða hræðilegt á skurðstofu. Í leiknum læra þau líka slökunaræfingar, fá jákvæða styrkingu og hvatningu til að efla hugrekki og fá svo verðlaun í lokin,“

Leikurinn var hannaður í samstarfi við börn á leikskólaaldri, heilbrigðisstarfsfólk og rannsakendur á Íslandi og í Finnlandi og finnskt tölvuleikjafyrirtæki.

Notendaprófanir meðal barna á leið í svæfingu og foreldra þeirra voru mjög jákvæðar og eru nú notaðar í undirbúningi rannsóknar á áhrifum leiksins á kvíða barna sem fara í svæfingu vegna skurðaðgerðar.

Hann er aðgengilegur bæði á App Store og Google Play og hefur þegar verið gefinn út á þremur tungumálum: íslensku, finnsku og ensku og hægt að bæta við fleiri tungumálum.

HEITI VERKEFNIS: Lokbrá / Mína og Draumalandið

Verkefnisstjóri: Katrín Jónsdóttir

Styrkþegi: NúnaTrix

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 19.400.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI

Þetta vefsvæði byggir á Eplica