Markaðssókn smáforrita til eflingar læsis - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

3.11.2016

Efnið, undir vörumerkinu Lærum og leikum með hljóðin, hefur verið þróað og unnið í smáforrit fyrir íslenskumælandi markað auk þess sem það hefur verið fært á enskumælandi markað undir merkjum Kids Sound Lab og Frog Game.

Markaðssókn smáforrita til eflingar læsis umfram væntingar

Skólar og samfélög um allan heim leita leiða til að bæta árangur í læsi og lesskilningi sem reynist lykill að árangri í námi. Þar hefur sjónum m.a. verið beint að snjalltækjanotkun og gagnvirkri nálgun.

Heiti verkefnis: Markaðssókn smáforrita til eflingar læsis
Verkefnisstjóri: Bryndís Guðmundsdóttir, Raddlist ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153379-0611

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Rannsóknir sýna mikilvægi þess að byrja snemma að vinna með hljóðkerfisþætti og orðaforða til undirbúnings læsis. Áratuga reynsla og fagþekking á sviði talmeinafræði er bakland framleiðslu á marksæknu efni fyrir barnafjölskyldur sem upphaflega var þróað fyrir íslenskan markað á sviði framburðar, hljóðkerfisþátta og orðaforða. Efnið, undir vörumerkinu Lærum og leikum með hljóðin, hefur verið þróað og unnið í smáforrit fyrir íslenskumælandi markað auk þess sem það hefur verið fært á enskumælandi markað undir merkjum Kids Sound Lab og Frog Game.

Raddlist ehf. naut stuðnings Tækniþróunarsjóðs til markaðssóknar á smáforritunum á 12 mánaða tímabili 2015-2016.

Markmið verkefnisins var að kynna forritin fyrir foreldrum og skólasamfélögum, bæði á Íslandi og enska útgáfu á alþjóðavettvangi og ná víðfeðmri notkun þeirra. Nánara tölulegt markmið var að ná 240.000 niðurhölum í Bandaríkjunum og 10.000 á Íslandi fyrir lok verkefnatíma í september 2016.

Niðurstöður fóru fram úr björtustu vonum. Í bandarísku Apple-versluninni eru niðurhöl við lok verkefnistíma komin í 260.000 og á Íslandi 11.600. Þá eru einnig um 8 þúsund niðurhöl í öðrum ríkjum Evrópu og ná jafnframt til Asíu.

Þessi ágæta kynning og útbreiðsla smáforritanna helgast ekki síst af markaðssetningu sem byggði á góðum umsögnum notenda og beinum kynningum Raddlistar fyrir skólasamfélögum bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, auk fjölbreyttra vefkynninga og vefnámskeiða, sérstakrar námsstefnu og þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Enska smáforritið Kids Sound lab, sem er dregið af hinu íslenska forriti Lærum og leikum með hljóðin, hlaut t.d. sérstaka viðurkenningu á Bett 2016, sem eitt af sex bestu smáforritunum í menntun og hlaut lokatilnefningu til bresku ELTon-verðlaunanna sem besta app í “Digital Innovation”. Þá sýnir ný íslensk rannsókn, sem kynnt verður fljótlega, yfirburði smáforritanna til undirbúnings fyrir læsi.

Forsvarsmenn Raddlistar telja að stuðningur Tækniþróunarsjóðs, ásamt framlögum nokkurra íslenskra fyrirtækja, hafi reynst ómetanlegur til að skapa þá afurð sem þetta íslenska hugvit er, kynna það notendum og koma því til þeirra með svo áhrifaríkum hætti.

Verkefninu er hvergi nærri lokið. Það hefur náð góðu flugtaki inn í netheima og á eftir að nýtast um ókomin ár, því stöðugt eru slík forrit uppfærð að nýjustu tækni, sérhverjum notanda að kostnaðarlausu. Niðurstöður íslensku rannsóknarinnar gefa verkefninu jafnframt áfram byr undir báða vængi.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica