Námsflæði - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

23.10.2020

Teymið á bak við Evolytes námskerfið hefur unnið lengi að þróun gagnadrifins námskerfis sem kennir fyrstu skrefin í stærðfræði á skemmtilegri og árangursríkari máta. Evolytes kerfið samanstendur af þremur vörum, námsleik, námsbók og upplýsingakerfi fyrir foreldra sem vinna allar saman í gegnum gagnadrifið námskerfi.

Logo tækniþróunarsjóðs

Læra stærðfræði hraðar

Gagnadrifna námskerfið metur stöðu hvers einstaklings í rauntíma og veitir einstaklingsmiðað námsefni sem hentar getustigi hvers og eins. Auk þess gefur það foreldrum nákvæmar upplýsingar um námsframvindu barnanna í rauntíma.

Evolytes námskerfið er unnið út frá rannsóknum í sálfræði og tölvunarfræði í Aperio kerfinu við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöður rannsóknanna sýndu að með þessari aðferð lærðu börn allt að 12 sinnum hraðar. Þau skiluðu betri árangri á prófum eftir að hafa nýtt sér kerfið og þau voru einnig jákvæðari gagnvart námsefninu.

Mikil vinna fór í uppbyggingu Evolytes námskerfisins þar sem markmið Evolytes er að skapa umhverfi um námið sem börn sækja sjálf í. Gæði námsleiksins stenst samanburð við það skemmtiefni sem börn velja sér í dag.

Námsleikurinn gerist í sögudrifnum ævintýraheimi þar sem börn kynnast og safna alls kyns dýrum í gegnum ævintýrið. Dýrin geta þróast í stærri og flottari dýr ef vel er hugsað um þau. Ævintýraheimurinn er drifinn áfram með söguþráð sem er í myndasöguformi. Hver aðgerð í leiknum kostar eitt rétt svar. Fyrstu notendurnir sem hafa nýtt sér námskerfið hafa flogið áfram. Notendurnir hafa verið að svara allt að 1.050 spurningum á einum degi.

Evolytes námskerfið er hannað fyrir börn sem eru að læra grunninn í stærðfræði. Námskerfið er kjörið fyrir 5-8 ára gömul börn. Námskerfið er sérstaklega gott fyrir börn sem eiga erfitt með að fóta sig í hefðbundnu námsefni. Börn með undirliggjandi vandamál á borð við athyglisbrest og ofvirkni sýndu sérstaklega miklar framfarir þar sem námsefnið er grípandi og skemmtilegt. Bættur námsárangur einskorðast þó alls ekki við þann hóp. Það sýndu allir bættan námsárangur með notkun námskerfisins. Það græða allir á því að búa að góðum grunni í stærðfræði þar sem stærðfræði er nauðsynleg þekking.

Fyrirtækið tók þátt í Gullegginu og Startup Reykjavík með góðum árangri, en lítið hefur farið fyrir þeim síðan. “Það má segja að við höfum lagst undir feld eftir þátttöku okkar í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík. Okkur þótti einfaldlega mikilvægara að þróa góða vöru, en að eyða tímanum okkar í samfélagsmiðla” segir Íris, einn af stofnendum verkefnisins. Evolytes hlaut styrkinn Sprota frá Tækniþróunarsjóði Íslands, sem gerði fyrirtækinu kleift að einbeita sér að vöruþróun. Við getum því með stolti sett á markað einstakt námskerfi sem kennir stærðfræði á skemmtilegri og árangursríkari máta.

Tímasetningin kjörin

Evolytes teymið hefur unnið myrkranna á milli síðustu daga við að klára að koma námskerfinu á markað. Námskerfið er kjörið til þess að vinna upp þann tíma sem börn hafa misst úr námi vegna ástandsins. Þá sérstaklega þeim börnum sem standa höllum fæti og eiga því minnst efni á því að missa úr náminu. Kerfið ætti að koma að einstaklega góðum notum þar sem börn læra hraðar, á skemmtilegri máta og með árangursríkari hætti.

Hægt er að nálgast Evolytes námskerfið á www.evolytes.com

HEITI VERKEFNIS: Námsflæði

Verkefnisstjóri: Mathieu Grettir Skúlason

Styrkþegi: Námsflæði ehf.

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 20 MILL IS kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica