Aðferð til að sótthreinsa kjúkling
Fyrri rannsóknir sýna að fleyti af fituefninu mónókapríni í vatni eru örverudrepandi og eru virk gegn sýklum sem berast með matvælum, svo sem kampýlóbakter og salmonella.
Þessar rannsóknir sýna að mónókaprínfleyti drepa kampýlóbakter í menguðu kjúklingafóðri og benda til þess að hægt sé að draga úr kampýlóbaktersýkingu í þörmum eldiskjúklinga ef þeim er gefið mónókaprínfleyti í drykkjarvatni og fóðri í magni sem hefur ekki merkjanleg áhrif á heilbrigði þeirra. Í þessu verkefni verður kannað hvort hægt sé minnka kampýlóbaktermengun kjúklingaskrokka í sláturhúsi með því að gefa sýktum eldisfuglum mónókaprínfleyti í 2 daga fyrir slátrun.
Fyrri rannsóknir hafa einnig bent til þess að draga megi úr kampýlóbaktermengun á kjúklingaskrokkum með böðun í mónókaprínfleyti og að böðun í lítið eitt sýrðu fleyti drepi kuldakærar bakteríur, sem valda skemmdum á kjúklingi við geymslu. Í þessu verkefni á að rannsaka þetta nánar með því að baða kjúklingaskrokka í mónókaprínfleyti á seinustu vinnslustigum í sláturhúsi og ákvarða hvort þessi meðferð lækkar annarsvegar fjölda kampýlóbakter á skrokkunum og hinsvegar fjölda kuldakærra baktería sem valda skemmdum á kjötinu.
Verkefnið tekur 2 ár.
Verkefnisstjóri er Halldór Þormar, netf.: halldort@hi.is
Umsjónarmaður Rannís er Oddur Már Gunnarsson, netf.: omg@rannis.is
