Thor-Ice-ískrapavélar og kerfi. Mótun og uppbygging til framtíðar á Norður-Atlantshafssvæðinu - verkefnislok
Thor-Ice ehf. er í fararbroddi þegar kemur að þekkingu á ískrapa sem kælimiðli og virkni hans á hráefni. Sú þekking er grunnurinn að þeirri sterku markaðsstöðu sem fyrirtækið hefur í dag, bæði á Íslandi og erlendis. Byggt er á þeirri stöðu í því markaðsátaki sem framundan er. Brúarstyrkur Tækniþróunarsjóðs gerði Thor-Ice ehf. kleift að ýta þessu átaki úr vör, samhliða því sem fyrirtækið vinnur að vöruþróun og hagræðingu í framleiðslu.
Heiti verkefnis: Thor-Ice-ískrapavélar og kerfi. Mótun og uppbygging til framtíðar á Norður Atlantshafssvæðinu
Verkefnisstjóri: Þorgeir Pálsson, Thorp ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur (áður brúarstyrkur)
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 5 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 121522-061
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Thor-Ice ehf. kemur nú fram með nýja gerð ískrapavéla; S-mini/eco-línuna. S-mini-línan er minni, einfaldari og ódýrari en ískrapavélar hafa áður verið. Þessi nýja kynslóð ískrapavéla markar visst upphaf, þar sem einfaldleiki í hönnun og virkni er aðalsmerki. Þessi einfaldleiki endurspeglast í nýrri heimasíða fyrirtækisins, www.thorice.is, þar sem kapp er lagt á að setja fram upplýsingar um eiginleika Thor-Ice-ískrapavéla á sem einfaldastan hátt. Þegar eru seldar 5 vélar úr þessari nýju S-línu.
Með þessum áfanga lýkur verkefni sem byggðist á brúarstyrk Tækniþróunarsjóðs. Verkefnið gekk út á að: móta heildarstefnu á staðfærslu Thor-Ice ehf. og Thor-Ice-ískrapavéla, markaðsstefnu og aðgerðaráætlunar fyrir Norður-Atlantshafssvæðið. Kjarninn í þessari staðfærslu er: ítarleg þekking á virkni og eiginleikum ískrapa og getan til að stýra honum í kælingu á sem hagkvæmastan hátt. Ný hönnun S-línunnar er hér lykilatriði.
Framundan er sókn fyrirtækisins inn á helstu sjávarútvegssvæði á Norður-Atlantshafssvæðinu. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu er Noregur. Komið er á formlegt samstarf við Melbu Systems á Melbu-eyju í Norður-Noregi, sala er hafin til Írlands, Danmerkur og Færeyja á þessari nýju hönnun véla. Síðan fylgja önnur lönd í kjölfarið, eins og; Grænland, Kanada, Alaska og austurströnd Bandaríkjanna. Markhópar Thor-Ice ehf. í þessu átaki eru:1) útgerðir lítilla og meðalstórra báta, 2) fiskeldisfyrirtæki, 3) landvinnsla (bulk) og 4) vinnslulínur.
Í Noregi er nú lögð áhersla á smábátaeigendur í Norður Noregi sem og fiskeldisfyrirtæki í Noregi almennt. Unnið er að greiningu á markhópum í öðrum löndum.
Aukin vitund útgerðar- og vinnsluaðila um mikilvægi gæða hráefnisins sem og vaxandi umræða um bætta meðferð afla um borð í smærri bátum og skipum, hefur undirstrikað þörfina fyrir öflugan, einfaldan og ódýran kælimiðil. Með tilkomu Thor-Ice S-línunnar af ískrapavélum fyrir litla og meðalstóra báta, er þessari þörf mætt í alla staði. Það er trú forsvarsmanna Thor-Ice ehf. að í framtíðinni verði ískrapavél í boði sem staðalbúnaður um borð í öllum bátum og skipum sem vilja tryggja gæði aflans og skila góðu hráefni til fiskvinnslunnar. Þetta er spurning um breytt hugarfar gagnvart gæðum, magni og meðferð á afla, og sú hugarfarsbreyting er þegar hafin.
Afrakstur:
- Ný vörulína Thor-Ice, S-mini línan
- Ný heimasíða: www.thorice.is
- Stefnumótun/markaðsstefna Thor-Ice ehf.
- Gróf aðgerðaráætlun fyrir markaðsaðgerðir á Norður-Atlantshafinu
- Greinar og umfjöllun í m.a. Fiskifréttum, Morgunblaðinu og víðar
- Þátttaka í samstarfsverkefnum með MATÍS, 3X Technology, Landssambandi smábátaeigenda og útgerð Ásþórs RE. Verkefnin eru styrkt af Tækniþróunarsjóði.