Mælir.is - verkefnislok

22.10.2013

Í september 2010 lagði ReMake Electric inn umsókn til Tækniþróunarsjóðs þar sem óskað var eftir styrkveitingu til að byggja upp veflægt kerfi fyrir mælingar á rafmagnsnotkun.  Tækniþróunarsjóður ákvað að styðja við þetta verkefni frá upphafi og hefur nú styrkt það í 3 ár.  Þann 15. ágúst 2013 var nýjasta útgáfan af kerfinu eTactica EMS 2.0 gefin út og áframhaldandi þróun er í fullum gangi.

Heiti verkefnis: Mælir.is
Verkefnisstjóri: Guðmundur Þorri Jóhannesson, ReMake Electric ehf. (í upphafi Snorri Hreggviðsson) 
Tegund styrks: Verkefnisstykur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 27 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100610183

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

eTactica EMS er veflægt orkustjórnunarkerfi sem gerir notendum um allan heim kleift að fylgjast með rafmagnsnotkun sinni og afleiddri losun CO2.  Rafmagnsnotkunin er mæld með rafmagnsmælibúnaði ReMake Electric sem mælir sérhverja grein og inntak í rafmagnstöflum.  Hingað til hafa kaupendur rafmagns, einungis séð heildarrafmagnskostnað sinn á reikningum orkufyrirtækja, en með eTactica EMS er loks hægt að sundurliða kostnað niður á sérhverja grein.  Notendur geta þar að auki flokkað greinar saman í hópa s.s. ljós og loftræstingu og fylgst með þróun á kostnaði sérhvers hóps.  Með eTactica EMS geta notendur því fundið hagræðingartækifæri og fylgst með því hvort hagræðingaraðgerðir skili tilætluðum árangri.

Með eTactica EMS gefst notendum enn fremur kostur á að fylgjast með álagi á rafmagnsgreinum og eTactica EMS gerir viðvart ef álag greinar nálgast þolmörk eða ef notkun er ekki í samræmi við áætlanir (t.d. ljós skulu slökkt að nóttu).  Þannig bætir kerfið rekstraröryggi fyrirtækja og getur komið í veg fyrir tjón s.s. rekstrarstöðvun.  Ávinningur notenda eTactica EMS hefur komið notendum á óvart og algengt er að fyrirtæki lækki rafmagnskostnað loftræstikerfa um 40% og rafmagnskostnað vegna lýsingar um 30%.

ReMake Electric hefur náð samningum við erlenda umboðsaðila sem bera ábyrgð á ákveðnum markaðssvæðum.  Til að styðja við þessa umboðsaðila hefur ReMake Electric útvíkkað virkni eTactica EMS þannig að umboðsaðilar geti stofnað og þjónustað notendur á þeirra markaðssvæði. 

Við þróun eTactica EMS var ákveðið að notast við opinn hugbúnað (s.s. Linux, PostgreSQL, Python) og byggja kerfið úr laustengdum einingum og þjónustum.  Þannig hefur tekist að lágmarka reksturskostnað kerfisins og viðhalda sveigjanleika lausnarinnar.  Með þessu er raunhæfur valkostur fyrir stærri viðskiptavini (s.s. verslunarkeðjur og gagnaver) að hýsa þeirra eigin uppsetningu af eTactica EMS á eigin vélum eða sýndarvélum Amazon svo dæmi séu tekin.  

Við lok þessa verkefnis er kerfið þegar í notkun í 40 byggingum á Íslandi og Englandi fyrir utan prófana-uppsetningar í Svíþjóð, Kína, Suðu-Afríku, Slóveníu, Singapúr og Portúgal.  ReMake Electric mun þróa eTactica EMS áfram til að styðja betur við núverandi viðskiptavini, umboðsaðila og til þess að liðka fyrir sölu á nýjum mörkuðum. 

Hér að neðan eru helstu verkefnin sem lúta að áframhaldandi þróun eTactica EMS:

  • Tengja viðvaranir eTactica við ytri kerfi s.s. vöktunarkerfi.
  • Leyfa notendum að skilgreina hagkvæmasta mynstur notkunar og fylgjast með frávikum.
  • Birta yfirlit yfir mörg útibú fyrirtækis.
  • Bera saman notkun sambærilegra tækja milli útibúa fyrirtækis.
  • Auka sjálfvirkt eftirlit með árangri viðskiptavina og halda viðskiptavinum upplýstum um stöðu mála.

 

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  • Afrakstur 1: Grunnkerfi eTactica 1.3 (release candidate)
  • Afrakstur 2: Kynslóð 2 af eTactica datastore (time series data)
  • Afrakstur 3: Lokaafrakstur verkefnisins er eTactica EMS 2.0 - byggt á opnum hugbúnaði








Þetta vefsvæði byggir á Eplica