Þrívíddarbúnaður fyrir linsur - verkefnislok

3.1.2014

Kúla Inventions Ltd. er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur undanfarin þrjú ár unnið að þróun þrívíddarbúnaðar fyrir ljósmyndavélar. Fyrsta framleiðsluvara Kúlu er Kúla Deeper, tæki til að setja framan á linsur SLR-ljósmyndavéla til að taka þrívíddarmyndir.

Heiti verkefnis: Þrívíddarbúnaður fyrir linsur
Verkefnisstjóri: Írís Ólafsdóttir, Kúla Inventions Ltd.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2012
Fjárhæð styrks: 19 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110723-061

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

 

Tækið byggir á speglakerfi sem varpar vinstra sjónarhorni viðfangsefnis í vinstri helming myndar og öfugt. Hugbúnaður Kúlu sem kallast Kúlacode vinnur myndirnar og getur vistað þær á hvaða þrívíddarskráarsniðum sem er, þar á meðal MPO-skráarsniðinu sem þrívíddarsjónvörp lesa. Kúla hefur einnig þróað þrívíddarsjá sem fylgir með tækinu svo allir geti á einfaldan hátt séð þrívíddarmyndirnar annað hvort beint á skjá myndavélarinnar, útprentaðar eða í tölvunni.

Nýlega skrifaði Kúla undir dreifingarsamning við stærstu ljósmyndavöruverslun heims og stórir dreifingaraðilar í Evrópu hafa sóst eftir að dreifa vörunni. Tækið mun því fljótlega vera aðgengilegt í framsæknustu ljósmyndavöruverslununum auk netverslana fyrir ljósmyndavörur víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og svo á vefsíðu fyrirtækisins, kula3d.com. Varan verður framleidd á Íslandi til að byrja með. Kúla Deeper og Kúlacode er fyrsta heildstæða lausnin í heiminum sem gerir þrívíddarmyndatöku með stórum SLR-myndavélum mögulega þar sem hægt er að njóta myndanna á nánast hvaða þrívíddarformi sem er. Tæknin býður bæði upp á þrívíðar ljósmyndir og kvikmyndir. Kúla þróar vörur fyrir fleiri tegundir linsa en SLR-ljósmyndavéla, þ.á.m. á minni myndavélar, innbyggðar myndavélar, á síma, spjaldtölvur og önnur tæki.

Kúla þróar einnig mismunandi útgáfur af myndvinnsluhugbúnaði sem vinnur þrívíddarmyndirnar. Kúla hefur lagt inn alþjóðlega einkaleyfisumsókn fyrir nýrri útgáfu af speglakerfi. Hún gerir það að verkum að sjónsvið þrívíddartækjanna verður breiðara en fæst með núverandi uppstillingu og verði hægt að útfæra þá lausn á hagkvæman hátt mun ný kynslóð tækisins líta dagsins ljós innan fárra ára. Einnig er búið að sækja um alþjóðlega hönnunarvernd fyrir tæki Kúlu. Stefna Kúlu er að halda áfram rannsóknum og þróun á skemmtilegum þrívíddarvörum fyrir linsur og má búast við a.m.k. einu nýju tæki á hverju ári auk fjölbreyttra hugbúnaðarlausna. Ætlunin er að skapa um 3-5 ný störf á hverju ári næstu árin. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica