ViralTrade: Kauphöll fyrir stafrænar eignir - verkefnislok

3.1.2014

ViralTrade þróar kauphöll, þá fyrstu sinnar tegundar, fyrir viðskipti með stafræna gjaldmiðla og sýndargjaldmiðla. ViralTrade kauphöllin mun aðstoða notendur við að kaupa og selja sýndargjaldmiðla, eins og þá sem fyrir finnast í hagkerfum tölvuleikja eins og World of Warcraft, fyrir raunverulega gjaldmiðla. Notendur munu á sama hátt geta verslað með stafræna gjaldmiðla, eins og til dæmis Bitcoin, fyrir raunverulega gjaldmiðla, en mikið hefur verið fjallað um Bitcoin upp á síðkastið. Enn fremur munu notendur svo geta keypt sýndargjaldmiðla fyrir stafræna gjaldmiðla og öfugt. Þannig mun ViralTrade tengja saman tvo ólíka gjaldeyrismarkaði sem hingað til hafa verið aðskildir.

Heiti verkefnis: ViralTrade: Kauphöll fyrir stafrænar eignir
Verkefnisstjóri: Guðlaugur Lárus Finnbogason, ViralTrade ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 9,98 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 121491-061

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

ViralTrade fékk styrk úr Tækniþróunarsjóði til að hanna og þróa ViralTrade kauphöllina ásamt samanburðarsíðu sem ber saman tilboð á sýndargjaldmiðlum frá ótal smásölum sýndargjaldeyris á internetinu. ViralTrade hannaði kerfi sem nær í yfir 250.000 tilboð frá smásölum sem skráð eru á www.viraltrade.com. Var síðan hafist handa við að þróa samanburðarsíðuna í átt að kauphöll. Í dag er búið að innleiða í síðuna gengisreikni fyrir flesta sýndargjaldmiðla og stafræna gjaldmiðilin Bitcoin, notendakerfi með skráningu og heimasvæðum, síunarkerfi fyrir tilboð og búið að þróa vísitölu fyrir sýndargjaldeyri svo fátt eitt sé nefnt. Stefnt er að því að fullklára kauphöllina þegar kaup- og sölukerfi verður innleitt á næstu mánuðum. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica