Sívirk þrif í matvælavinnslu - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði

15.1.2014

Meginmarkmið verkefnisins var að þróa og markaðssetja tækni til sjálfvirkra þrifa í matvælavinnslu.  Fram hefur komið ríkur áhugi hjá kjötvinnslum á að þróuð verði tækni til að nýta útfjólubláa lýsingu (UV-lýsingu) til að hefta örveruvöxt í tækjabúnaði í vinnslunum.  Verkefnið hefur því einkum snúið að þessum þætti, þar sem á fyrsta verkefnisári fór fram þróun búnaðar og prófanir til þess að meta árangur UV-lýsingar.

Heiti verkefnis: Sívirk þrif í matvælavinnslu
Verkefnisstjóri: Kristinn Andersen, Marel ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009-2010
Fjárhæð styrks: 11,3 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: RAN090303-0265

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Á síðara ári verkefnisins voru frekari prófanir gerðar, einkum til þess að skoða fleiri staði í vinnslukerfunum til UV-lýsingar og að meta hvernig takmörkun örveruvaxtar geti aukið geymsluþol matvæla. Skoðað var hvaða staðir hentuðu til að beita UV-lýsingu þannig að hún skilaði tilsettum árangri, hvaða áhrif lýsingin hefði á plastefni og hvað bæri að varast, s.s. varðandi öryggismál gagnvart starfsfólki.

Meginniðurstaða verkefnisins er að með UV lýsingu á tilteknum stöðum í vinnsluferlinu má minnka örveruþéttni um stærðargráður. Í því felst ávinningur fyrir frekari þróun vinnslulína.

Afrakstur:

  • Afrakstur verkefnisins felst í þekkingu á eyðingu örvera með UV-lýsingu og þeim tilraunaniðurstöðum sem liggja nú fyrir.
  • Búnaður til þess að beita UV-lýsingu í kjötvinnslulínum hefur verið þróaður og lýsingarbúnaður úr verkefninu verður áfram notaður til frekari þróunar.
  • Tæknileg lokaskýrsla liggur fyrir eftir verkefnið, þar sem niðurstöður eru teknar saman.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica