Þráðlaus svefnriti - verkefnislok

22.1.2014

Nox Medical hefur í samvinnu við Tækniþróunarsjóð nú lokið verkefninu „Þráðlaus svefnriti“.  Í þessu verkefni var lagt af stað með metnaðarfull markmið; þ.e. að þróa nýja kynslóð svefnmælitækja og greiningarhugbúnaðar sem gera svefnritun hagkvæmari, öruggari, þægilegri og einfaldari en það sem tíðkast á svefnmarkaðinum í dag. Nox Medical hefur áður náð umtalsverðum árangri á sviði mælitækja til svefngreiningar með svipuð markmið að leiðarljósi og hefur frá árinu 2009 selt mælitækið T3 ásamt hugbúnaðinum Noxturnal til mælinga á öndunartengdum svefntruflunum.  Kerfið hefur náð mikilli útbreiðslu og er nú meðal mest seldu mælitækja í heiminum til greiningar á öndunartengdum svefntruflunum. 

Heiti verkefnis: Þráðlaus svefnriti
Verkefnisstjóri: Kolbrún Eydís Ottósdóttir, Nox Medical ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2012
Fjárhæð styrks: 18 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110643-061

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Varan sem þróuð var í verkefninu „Þráðlaus svefnriti” hlaut nafnið A1 og var sett á markað 16. desember 2013.  A1 er frábrugðin T3 að því leyti að hér er um að ræða fulla svefnritun (e. polysomnography eða PSG) sem byggir á heila-, hjarta- og vöðvariti ásamt öndunarmælingu, á meðan T3 tækið var hannað með áherslu á svefntengdar öndunartruflanir.  Í þessari vöru endurtekur Nox Medical leikinn og setur á markað nýja kynslóð svefnmælitækja sem eiga engan sinn líka hvað varðar stærð, þægindi fyrir sjúkling, geiningarhæfni og viðmót.  Með innleiðingu nýjustu fáanlegu tækni í rafrásum tókst að halda stærð mælitækisins svipaðri og fyrir T3 þrátt fyrir að umsvif mælingarinnar séu margföld að gagnamagni.  Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hversu vel tækið hentar til svefngreininga á börnum sem hafa hingað til þurft að sætta sig við að vera bundin við rúmið með rafleiðslum og skynjurum en með tilkomu A1 eru þau að mestu frjáls ferða sinna meðan á mælingu stendur.  Tækið hefur nú þegar fengið mjög jákvæð viðbrögð á markaðinum og strax fyrsta sólarhringinn var sölum lokað og er varan því farin að skila tekjum.  Reiknað er með umtalsverðum sölum af A1 árið 2014 og að kostnaður við þróunina verði búinn að borga sig upp innan tveggja ára.

Afrakstur: 

  • PSG-svefnmælitækið A1 ásamt skynjurum og fylgihlutum
  • Svefngreiningarhugbúnaðurinn Noxturnal 4.0 fyrir PSG-mælingar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica