Styrking innviða ICO og sérstakt markaðsátak - verkefnislok

12.3.2014

Icelandic Cinema Online ehf. (ICO) var stofnað af Sunnu Guðnadóttur og Stefaníu Thors árið 2011 með það markmið að nýta tækifæri sem felast í nýrri tækni og hraðari nettengingum til að dreifa og kynna íslenskar kvikmyndir á alþjóðamarkaði. Icelandic Cinema Online opnaði vefinn, www.icelandiccinema.com, í lok maí 2011 en hann bætir umtalsvert aðgengi að íslensku kvikmyndaefni en aðgengi var afar takmarkað fram að opnun vefsins. Hann veitir íslensku kvikmyndagerðarfólki og framleiðendum tækifæri á því að koma framleiðslu sinni á framfæri á alþjóðamarkaði og á mun stærra markaðssvæði en í gegnum hefðbundnar dreifileiðir.

Heiti verkefnis: Styrking innviða ICO og sérstakt markaðsátak
Verkefnisstjóri: Sunna Jóna Guðnadóttir, Icelandic Cinema Online ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur (áður brúarstyrkur)
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 5 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 121555

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Um er að ræða nýsköpun í þjónustu á markaðssviði fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað en einnig felst nýnæmi vefsins í þjóðlegri (e. ethnic) nálgun hans á framboði á kvikmyndaefni þar sem fólk getur nálgast kvikmyndefni frá einni þjóð á einum stað en það lækkar leitarkostnað notenda svo um munar. Nú þegar eru um tæplega 200 titlar af íslensku kvikmyndaefni í boði á vefnum. Allt efni sem er í boði er með að lágmarki enskan texta en flestar myndir eru einnig með texta á fleiri tungumálum eins og frönsku og þýsku. Viðmót vefsins er á ensku, frönsku og þýsku. Flestir notendur vefsins koma erlendis frá eða um 85% og flestar heimsóknir voru frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og öðrum Norðurlöndum.

Árið 2013 var viðburðaríkt ár hjá ICO en í byrjun árs 2013 fékk fyrirtækið verkefnastyrk frá Tækniþróunarsjóði til styrkingar innviða fyrirtækisins og fyrir sérstöku markaðsátaki. Meginmarkmið verkefnsins “Styrking innviða ICO og sérstak markaðsátak” var að koma vefnum úr beta í fullvirkan vef og auka þjónustu fyrir bæði notendur og efniseigendur. Útlit vefsins var uppfært og bætt var við fréttagátt inn í íslenska kvikmyndagerð fyrir notendur vefsins. Allar fréttir eru birtar á ensku þar sem meirihluti notenda er enskumælandi (USA). Ýmissi virkni var bætt við vefinn til að bæta upplifun og upplýsingaflæði til bæði notenda og efniseigenda.

Afrakstur: 

  1. Uppfærður vefur Icelandic Cinema Online – www.icelandiccinema.com/www.cinema.is
  2. Snjallsímaforritið Iceland Film Locations og vefurinn www.filmlocations.is








Þetta vefsvæði byggir á Eplica