Sérstakt markaðsátak í Evrópu - verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

2.4.2014

Tulipop hlaut í lok ársins 2012 brúarstyrk frá Tækniþróunarsjóði til að ráðast í sérstakt markaðsátak í Evrópu. Fyrirtækið Tulipop var stofnað í byrjun árs 2010 af Signýju Kolbeinsdóttur vöruhönnuði og Helgu Árnadóttur, MBA. Tulipop er töfrandi ævintýraeyja þar sem búa heillandi persónur, en aðalpersónur Tulipop eru sveppasystkinin Bubble og Gloomy. Persónur Tulipop eru krúttlegar og skemmtilegar en um leið svolítið skrítnar og sérvitrar - ekki þessar týpísku staðalímyndir. Ævintýraheimur Tulipop virkjar ímyndunarafl barna og reynslan hefur sýnt að born heillast auðveldlega af persónum og náttúru Tulipop-eyjunnar.

 Tulipop -básinn Í Sýningarhöll 11.1

Tulipop-básinn í sýningarhöll 11.1

Heiti verkefnis: Sérstakt markaðsátak í Evrópu
Verkefnisstjóri: Helga Árnadóttir, Tulipop ehf.
Tegund styrks: Brúarstyrkur
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 5 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 121446

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Vörulína Tulipop skiptist í þrjá flokka: borðbúnað, ritföng og húsbúnað. Áhersla er lögð á að framleiða vandaðar og fallegar gjafavörur sem flokkast sem „premium” vörur. Gæði og öryggi allra Tulipop vara hafa verið tryggð, m.a. með prófunum hjá alþjóðlegum prófanafyrirtækjum.

Tulipop er orðið vinsælt vörumerki á íslenskum markaði með sterkt net söluaðila, en þar sem vaxtartækifærin á Íslandi eru afar takmörkuð var Tulipop mikilvægt að fá stuðning til þess að ráðast í öflugt kynningarstarf erlendis. Tulipop nýtti brúarstyrk Rannís til að ráðast í umfangsmikil sölu og markaðsverkefni á tímabilinu, tók m.a. þátt í Ambiente vörusýningunni í Frankfurt í febrúar 2013 og Top Drawer vörusýningunni í London í janúar 2014, stundaði markvisst sölu- og markaðsstarf og hafði samband við yfir 200 verslanir í Evrópu í gegnum síma, tölvupóst og rafræn fréttabréf, vann ítarlegar markaðsrannsóknir í Bretlandi til að undirbúa markaðssókn þar í landi, og útbjó nýtt kynningarefni, vörulista og kynningarbækling til dreifingar í verslunum til að styðja við vörusölu. Einnig var ráðist í endurbætur á vefsíðu fyrirtækisins.

Þetta verkefni var gríðarlega mikilvægt fyrir Tulipop en með því voru stoðir rekstrarins styrktar og mikilvægur árangur náðist í útflutningi og kynningu á Tulipop í Evrópu. Verkefnið skilað sölu til átta nýrra söluaðila í Evrópu, í 6 löndum, samningi við öflugan umboðsmann í Skandinavíu, og viðræðum við mögulega dreifingaraðila á fleiri mörkuðum. Tulipop hlaut einnig umfjöllun í mörgum erlendum miðlum, auk þess sem Tulipop hefur byggt upp dýrmæt viðskiptasambönd s.s. við vandaða framleiðendur, fyrirtæki á sviði kynningarmála, fjölmiðla, og innkaupastjóra verslana.  Einnig hefur Tulipop stigið það skref að skrá Tulipop vörumerkið alþjóðlega, bæði innan Evrópusambandsins og í Kína sem er afar mikilvægt skref í uppbyggingu verðmæts vörumerkis á heimsvísu. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica