Uppbygging innviða og markaðsstarfs fyrir útflutning á Skema-aðferðafræðinni

Verkefni lokið

26.6.2014

Útflutningur á aðferðafræði Skema hafinn.

Skema er framsækið sprotafyrirtæki sem stofnað var árið 2011. Skema hefur sérhæft sig í rannsóknum og kennslu í forritun á öllum skólastigum og hefur þróað aðferðafræði við kennslu sem studd er af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði. Skema hefur náð góðri fótfestu á íslenskum markaði og hefur kennt hátt í 2000 börnum og um 50 kennurum á Íslandi forritun á þeim stutta tíma sem fyrirtækið hefur verið starfrækt. Á þessu ári hefur fjöldi grunnskóla haft samband til að fá Skema-námskeið í tómstundastarf skólans, en einnig hefur áhugi á þjálfun kennara og stuðningi við innleiðingu forritunarkennslu aukist til muna.

Heiti verkefnis: Uppbygging innviða og markaðsstarfs fyrir útflutning á Skema-aðferðafræðinni
Verkefnisstjóri: Þórunn Jónsdóttir, Skema ehf.
Styrktegund: Markaðsstyrkur
Fjárhæð styrks: 8 millj. kr.
Styrkár: 2013
Tilvísunarnúmer Rannís: 131839-0611

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Vorið 2013 hlaut Skema markaðsstyrk Tækniþróunarsjóðs til að byggja upp innviði félagsins og hefja útflutning á aðferðafræði og vörum Skema til Bandaríkjanna. Skema notar vörumerkið reKode á alþjóðamarkaði og liður í því að festa vörumerkið í sessi og hljóta nægjanlega vernd var að sækja um alþjóðlega vörumerkjavernd og setja upp heimasíðu á ensku. Þá var ráðist í að skrifa markaðsáætlun og gera markaðsefni til notkunar á Bandaríkjamarkaði. Prufumarkaðssetning hófst í október 2013 og fyrstu námskeiðin í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Redmond í Washington fylki, voru haldin í nóvember með góðum árangri. Unnið verður með niðurstöður markaðssetningar og námskeiðahalds og það nýtt til uppfærslu á markaðsáætlun til að ná fram sem mestri skilvirkni og hagkvæmni í framtíðarmarkaðssamskiptum félagsins á alþjóðavísu.

Stefnt er að því að byggja upp tæknisetur (reKode Centers) víðs vegar um heiminn og er fyrsti liður í því að setja upp eigin setur á völdum stöðum innan Bandaríkjanna auk Íslands. Að því loknu verður byggt upp sérleyfiskerfi fyrir alþjóðamarkað. Fyrstu skrefin í þá átt voru tekin með þessu verkefni, en farið var í það með HAF Studios á Íslandi að hanna útlit og andrúmsloft setranna auk þess sem unnið var að drögum að sérleyfissamningum með lögmönnum á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Markaðsstyrkur Tækniþróunarsjóðs gegndi lykilhlutverki í að gera Skema kleift að undirbúa vel og stíga sín fyrstu skref á alþjóðamarkaði. Í kjölfar þessa verkefnis er Skema í góðri stöðu til að halda áfram þróun sérleyfiskerfis og huga að uppsetningu á reKode setrum í Bandaríkjunum, á Íslandi og í Evrópu, en Skema mun hafa yfirumsjón með öllum útflutningi til Evrópu fyrir hönd reKode.

Efnahagslegur ávinningur fyrirtækisins og atvinnulífsins af þessu verkefni er einfaldur; með þessu öðlast Skema stærra markaðssvæði og skapar gjaldeyristekjur fyrir landið. Þá mun þetta verða einn fyrsti liðurinn í því að setja Ísland á kortið sem land sem stendur fyrir menntun í takt við tækniþróun.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

1.            Heimasíða reKode (Skema á alþjóðamarkaði): www.rekode.com
2.            Markaðsáætlun
3.            Markaðsefni

Þetta vefsvæði byggir á Eplica