Norðurkví - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.1.2015

Niðurstöður verkefnisins eru öllum opnar og því geta eldisaðilar nýtt sér hina nýju tækni til að sökkva kvíum hjá sér.

  • Verkefnið Norðurkví var sett á laggirnar til að:
  • Hanna tæknilausn fyrir eldiskví til að gera eldismönnum kleift að sökkva henni og lyfta við íslenskar aðstæður.
  • Hámarka notagildi sökkvanlegra kvía með tilliti til vinnuaðstæðna.
  • Að viðbættu að leita lausna á meðhöndlun á netapokum í fiskeldi til að hrinda frá ásætum.

Heiti verkefnis: Norðurkví
Verkefnisstjóri: Ólafur Ögmundarson, Matís ohf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 3 ár á tímabilinu 2008-2012
Fjárhæð styrks: 21,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 081227

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Nú í lok þess er hægt að fullyrða að verkefnið hefur skilað þeim afrakstri sem lagt var upp með í upphafi. Hannaður var búnaður til að hægt væri að sökkva og lyfta kví aftur til að koma í veg fyrir skemmdir vegna rekíss á fjörðum við Ísland. Til grundvallar þessari tækni lá skýrsla um lagnaðarís við Ísland sem nýtist öllum þeim sem hyggja á framkvæmdir á íslenskum fjörðum. Að auki voru nokkrar nýjar tegundir meðhöndlana á netapokum prófaðar í samanburði við hefðbundna meðhöndlun (sem í er koparoxíð) en notkun slíkrar meðhöndlunar er og verður háð takmörkunum frá eftirlitsaðilum í nánustu framtíð. Slíkt á einnig við ef eldisaðilar ætla að fá framleiðslu sína umhverfisvottaða en sumir staðlar banna alfarið notkun á koparoxíði á netapoka. Efnin sem prófuð voru koma frá fyrirtækinu DIS ehf. og byggja flest á íslensku hugviti og eru umhverfisvæn.

Skemmst er frá því að segja að ein meðhöndlunin gaf von um að geta keppt við endingu koparoxíðsmeðhöndlunarinnar en frekari rannsóknir þarf í þeim efnum og stefnt er á að framkvæma þær á næstu mánuðum í samvinnu við erlendan netaframleiðanda sem sýnt hefur verkefninu áhuga.

Niðurstöður verkefnisins eru öllum opnar og því geta eldisaðilar nýtt sér hina nýju tækni til að sökkva kvíum hjá sér. Hvað varðar niðurstöður netaprófana þá er eftir miklu að slægjast enda eru ásætur í sjó alltaf að verða stærri vandi við strendur Íslands og það sama á við um eldi í sjó um allan heim.

Að lokum langar þátttakendum verkefnisins til að þakka Tækniþróunarsjóði og AVS-sjóðnum fyrir veittan stuðning til að framkvæma þetta verkefni. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins:

  • Rannsókn á lagnaðarís við Ísland – Veðurstofa Íslands
  • Hönnun og prófanir á búnaði til að sökkva eldiskví – Matís ohf.
  • Prófanir á mismunandi meðhöndlunum til að hrinda ásætum frá kvíapokum í fiskeldi – Matís ohf.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica