RATVÍS – staðsetningarbúnaður fyrir ómönnuð för - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

15.1.2015

Í verkefninu var þróaður búnaður ætlaður til nota við stjórn sjálfstýrðra farartækja. 

Sprotafyrirtækið Autonomous State ehf. hefur lokið verkefninu RATVÍS – staðsetningarbúnaður fyrir ómönnuð för, sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði. Í verkefninu var þróaður búnaður ætlaður til nota við stjórn sjálfstýrðra farartækja. Búnaðinn er ætlað að nota þar sem gervitunglastaðsetningar nýtur ekki við eða er ótrygg eða ónákvæm, s.s. neðansjávar, innandyra og á þéttbyggðum svæðum.

Heiti verkefnis: RATVÍS – staðsetningarbúnaður fyrir ómönnuð för
Verkefnisstjóri: Torfi Þórhallsson, Autonomous State ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2008-2010
Fjárhæð styrks: 17,1 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 081241

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Ódýr gervihnattatækni er víða notuð til staðsetningar, m.a. við leiðsögn í mönnuðum farartækjum. Hennar nýtur hins vegar hvorki við innandyra né neðansjávar og að takmörkuðu leyti þar sem háreist byggð nærri götum og vegum byrgir sýn til gervihnatta. Við stjórn sjálfstýrðra farartækja eru ennfremur gerðar meiri kröfur til staðsetningar en við leiðsögn. Staðsetning þarf að vera nákvæmari og ávallt til staðar. Núverandi kynslóð sjálfstýrðra farartækja nýtir því dýran tækjabúnað, sem hentar illa til fjöldaframleiðslu. Annars vegar er um að ræða nákvæm tregðukerfi og hins vegar fjölgeislaskanna. Bæði kerfin eru dýr, kosta um 10 milljónir króna á hvert farartæki.

Í verkefnið Ratvís eru nýttar framfarir í smíði ódýrra nema, sem gætu leyst af hólmi dýrari staðsetningartæki við ákveðin verkefni. Einnig nýtir búnaðurinn framfarir í staðsetningu eftir kennileitum frá myndavélum. Þróað var sérhæft mælakerfi, búið nemum sem uppfylla þarfir um nákvæmni og rekstraröryggi. Þróaðar voru hugbúnaðareiningar sem reikna staðsetningu frá ólíkum nemum, sem tefla má saman til þess að nýta kosti og koma á móts við galla stakra nema. Sýnt var fram á notagildi búnaðarins við staðsetningu innandyra. Smíðuð var frumgerð, sem safnar mælingum og vinnur úr þeim á rauntíma. Unnið var að samþættingu hugbúnaðar og undirbúningi prófana við raunaðstæður utandyra.

Afrakstur verkefnisins:

Frumgerð mælakerfis með ígreyptum hugbúnaði. Frumgerð hugbúnaðareininga til ákvörðunar staðsetningar. Frumgerð rauntímakerfis.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica