Veðurspár fyrir vindorkuframleiðendur

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

6.3.2015

Verkefniðsem leitt var af Belgingi, gekk út á að markaðssetja veðurspálausn þá sem Belgingur hefur þróað á undanförnum árum. 

Megintilgangur verkefnisins var að auka markaðshlutdeild fyrirtækisins erlendis. Nýrra samninga hefur ekki enn verið aflað en hugbúnaðurinn hefur verið kynntur á sölusýningum í Evrópu ásamt því sem fagstofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa sýnt lausninni mikinn áhuga, og eru miklar vonir bundnar við það samstarf.

Heiti verkefnis: Veðurspár fyrir vindorkuframleiðendur
Verkefnisstjóri: Ólafur Rögnvaldsson, Belgingi, reiknistofu í veðurfræði ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2013
Fjárhæð styrks: 8 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 132053-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Nákvæmar vindaspár eru mjög mikilvægar til að meta raforkuframleiðslu  einstakra vindlunda. Slíkar vindaspár eru nú reiknaðar fyrir Landsvirkjun og hollenska orkufyrirtækið Eneco Ltd. Auk þessa hefur verið sett upp raforkuspákerfi fyrir vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu norðan Búrfells. Ennfremur er unnið að því að koma upp hugbúnaði til að meta framleiðslutap innan vindlunda sem skapast vegna skjóláhrifa einstakra vindmylla innan lundsins. Með þessu móti verður hægt að staðsetja vindmyllur innan vindlundarins þ.a. orkutap verði sem minnst og raforkuframleiðsla sé hámörkuð.

Sýnt hefur verið fram á að hægt er að bæta hermun á veðri töluvert með því að nýta lóðsniðsmælingar, hvort sem er frá sjálfvirkum flýgildum eða fjarkönnunarbúnaði, inn í veðurspákerfi Belgings. Einnig er hægt að bæta vinda- og hitaspár á einstaka stöðum m.þ.a. nýta söguleg gögn til að leiðrétta fyrir villuhneigð spálíkansins. 

Áfram verður unnið að því að kynna hugbúnaðarlausnina á erlendri grundu, bæði innan vindorkugeirans og hjá fagstofnunum sem bera ábyrgð á vöktun og aðvörunum vegna náttúruvár.

Afrakstur:

  • Kynningarbæklingur unninn fyrir European Wind Energy Association sölusýninguna í mars 2014
  • Tækniskýrsla unnin fyrir Landsvirkjun
  • Tækniskýrsla unnin fyrir Eneco Ltd. í Hollandi
  • Tækniskýrsla unnin fyrir Landsverk í Færeyjum
  • Greinargerð um spákerfi Belgings









Þetta vefsvæði byggir á Eplica