Forskot til framtíðar - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.3.2015

Mennta- og tæknifyrirtækið Skema var stofnað árið 2011 og hefur síðan tekið á móti rúmlega 4.500 börnum á aldrinum 6-16 ára á fjölbreytt forritunar- og tækninámskeið.

Breytt grunnfærni kallar á nýtt kennsluefni og -aðferðir

Sú tækniþróun sem er að eiga sér stað kallar á breytingu og uppfærslu á núverandi skólakerfi í takt við tækniþróunina. Mennta- og tæknifyrirtækið Skema var stofnað árið 2011 og hefur síðan tekið á móti rúmlega 4.500 börnum á aldrinum 6-16 ára á fjölbreytt forritunar- og tækninámskeið samhliða því að koma inn sem ráðgefandi aðili í skólastarf einstaka skóla og sveitarfélaga. 

Heiti verkefnis: Forskot til framtíðar
Verkefnisstjóri: Ásdís Ármannsdóttir, Skema ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur í markáætlun um betri lausnir fyrir minna fé
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 30 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnið “Forskot til framtíðar” hlaut styrk til þriggja ára frá Tækniþróunarsjóði árið 2012 og er beinni aðstoð sjóðsins við þetta verkefni fyrirtækisins nú formlega að ljúka. Árangurinn hefur verið framar vonum og ljóst að þörf fyrir þjónustu og vöru Skema er mikil. Verkefnið hefur samhliða kveikt nýjar hugmyndir og verkefni sem Skema vinnur nú að í samstarfi við einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki.

Forskot til framtíðar - að sprengja sig út úr því hefðbundna og sækja fram

Síðustu ár hefur töluverð vinna átt sér stað varðandi stefnumörkun í upplýsingatækni í íslensku skólastarfi. Meðal þess sem unnið er að þessi misserin eru hugmyndir um almenna forritunarkennslu í grunnskóla án þess að formleg ákvörðun um að setja forritun í námskrá skólanna hafi verið tekin. Skema og skólar/sveitarfélög hafa gert með sér samninga til ákveðins tíma með það fyrir augum að auka tæknilæsi og tækniþekkingu. Þjónusta Skema er í hverju tilfelli aðlöguð að þeim skóla/sveitarfélagi sem um ræðir.

Sérfræðingar Skema byrja á því að greina styrkleika og þarfir og setja í framhaldinu fram tillögu að innleiðingarferli tækni og forritunar byggt á þeim greiningum. Þeir sjá um þjálfun kennara með beinni eða óbeinni þátttöku í kennslu í ákveðinn tíma, fylgja verkefninu eftir og leggja til aðstoð við markmiðasetningu og skólanámskrárgerð. Grunnskólinn á Bolungarvík og Kópavogsskóli eru góð dæmi um skóla og Ísafjarðarbær gott dæmi um sveitarfélag sem hafa ákveðið að uppfæra upplýsingatæknimenntun hjá sér í takt við tækniþróun. Grunnskólinn á Bolungarvík hefur á síðustu mánuðum gert miklar breytingar á fyrirkomulagi hjá sér og gert nemendur sína ábyrgari fyrir eigin námi, Kópavogsskóli er farinn að bjóða upp á framhald í forritun, fyrstur íslenskra grunnskóla og Ísafjarðarbær er með þjónustusamning til 14 mánaða við Skema sem miðar að því að ná fram árangursríkri innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarf bæjarins, auka samvinnu milli allra skólastiga á svæðinu og marka sveitarfélaginu forystustöðu á landsvísu í beitingu á tækni í skólastarfi.

”Í Grunnskólanum á Bolungarvík erum við búin að fækka föstum greinatímum í töflu á unglingastigi og höfðum fleiri frjálsa vinnutíma með það að markmiði að auka ábyrgð nemenda á eigin námi auk þess að hvetja einnig kennara til að nýta sér tæknina í meiri mæli til gagnvirkrar kennslu og við skil á verkefnum. Formleg forritunarkennsla er nú í fullum gangi á yngsta stigi og miðstigi ásamt valáföngum á unglingastigi” segir Soffía Vagnsdóttir, fyrrum skólastjóri Grunnskólans á Bolungarvík.

Vörulína sem byggir á mikilli reynslu

Reynslan hefur sýnt að sá tími og orka sem kennarar innan grunnskóla landsins hafa til þróunarstarfs er af skornum skammti, sérstaklega þegar komið er inn í skólaárið og því mikil áskorun fólgin í því að ætla að fara að breyta námsefni og kennsluaðferðum. Skema hefur í gegnum verkefnið síðustu fjögur árin þróað vörulínu sem byggir á reynslu fyrirtækisins í 1) notkun á upplýsingatækni, 2) á fjölbreyttri forritunar- og tæknikennslu, 3) handleiðslu og ráðgjöf til fjölda kennara og skólastjórnenda og 4) spjaldtölvukennslu í fjölmörgum skólum. Vörulínan byggir síðan umfram allt á nánu samstarfi við kennara og skólastjórnendur og handleiðslu til þeirra í gegnum innleiðingarferlið. Handleiðslan tryggir að kennarar njóti stuðnings í starfi, í sínu umhverfi og kemst vinnan eins nálægt því að hafa sérfræðing í föstu starfi við ráðgjöf í notkun á tækni innan hvers skóla.

Listi yfir nokkrar fréttatilkynningar sem birtar hafa verið:

  • Styrkir veittir fyrir um 8 milljónir: http://www.forritarar.is/Lesafrett/ny-stjorn-forritaraframtidarinnar/
  • Nýtt líf í Síðumúla 23: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/213
  • Fjórar milljónir veittar til skóla: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/210
  • Framhaldsskólastelpur forrita með /sys/trum: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/209
  • Setjum forritun í forgang: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/204
  • Skólakerfið uppfært á Ísafirði: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/203
  • Aldrei fleiri stelpur á tækninámskeiði Skema: http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/196








Þetta vefsvæði byggir á Eplica