Á árinu 2014 var íslenska hönnunarfyrirtækinu Tulipop úthlutað markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði til að ráðast í öfluga markaðssókn á Bretlandsmarkaði. Markmið fyrirtækisins var að ná fótfestu á breskum markaði, byggja upp þétt net söluaðila og auka þannig útflutningstekjur og verðmæti vörumerkisins.
Heiti verkefnis: Markaðssókn Tulipop í Bretlandi
Verkefnisstjóri: Helga Árnadóttir, Tulipop ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2014
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 142342-061
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Stuðningur Tækniþróunarsjóðs gerði Tulipop kleift að ráðast í fjölbreytt markaðsverkefni á breskum markaði. Fyrirtækið tók þátt í þremur virtum vörusýningum á árinu, auk þess að taka þátt í svokallaðri „pop-up” verslun í hópi virtra barnavörumerkja. Samhliða því stundaði Tulipop samfellt sölu- og markaðsstarf í gegnum síma, tölvupóst og rafræn fréttabréf, auk þess sem breskar verslanir voru heimsóttar reglulega, og vörur fyrirtækisins voru markvisst kynntar fyrir breskum fjölmiðlum, bæði prent- og netmiðlum.
Verkefnið hefur leitt til umtalsverðrar veltuaukningar Tulipop á breskum markaði, en vörur Tulipop eru nú seldar í 23 verslunum í Bretlandi. Vörur Tulipop hafa jafnframt fengið mjög jákvæða fjölmiðlaumfjöllun í Bretlandi, en umfjöllun um vörur fyrirtækisins hefur meðan annars birst í dagblaðinu Daily Mail, í tímaritinu Toy News og í tímaritunum Mother & Baby og Prima Baby sem eru mjög mikið lesin. Tulipop varð einnig þess heiðurs aðnjótandi að fá þrjár viðurkenningar fyrir vörur sínar frá hinum virtu Junior Design Awards í lok ársins 2014, en Tulipop er að því best er vitað fyrsta íslenska vörumerkið til að fá slíkar viðurkenningar.
Árangur Tulipop á breskum markaði hefur einnig opnað tækifæri á öðrum mörkuðum, en í gegnum breskar vörusýningar hefur Tulipop selt vörur sínar til fleiri landa og náð samningum við samstarfsaðila á öðrum mörkuðum, s.s. við umboðsmann í Frakklandi og fyrirtæki á sviði nytjaleyfasamninga í Bandaríkjunum (e. licensing agreements).
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.