PROSPER – verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

4.5.2015

Prosper er herkænskuleikur spilaður gegnum netvafra af þúsundum spilara.

Verkefnið fólst í að þróa spilanlega útgáfu af tölvuleiknum PROSPER sem er herkænskuleikur sem spilaður verður gegnum netvafra af þúsundum notenda í rauntíma. Leikurinn er framleiddur af Solid Cloud Games. Verkefnið skiptist í fjóra meginhluta.

Heiti verkefnis: PROSPER – herkænskuleikur spilaður gegnum netvafra af þúsundum spilara
Verkefnisstjóri: Tómas Sigurðsson, Solid Cloud Games ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2014
Fjárhæð styrks: 7 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 142228-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Í fyrsta verkhluta sem var lokið í ársbyrjun 2014, var gerð óspilanleg frumútgáfa af PROSPER. Sú útgáfa var í raun sönnun á því að engar tæknilegar hindranir væru til staðar sem kæmu í veg fyrir gerð leiksins.

Í öðrum verkhluta sem styrktur var af Tækniþróunarsjóði var framleidd spilanleg útgáfa af leiknum. Þessi útgáfa inniheldur fyrstu útgáfur af helstu kerfum leiksins eins og flotakerfi, bardagakerfi, könnunarkerfi, rannsóknakerfi o.fl. Spilarar geta nú skráð sig inn í leikinn, stofnað geimstöðvar, safnað auðlindum, byggt upp flota og ráðist á andstæðinga sína.

Í þriðja verkhluta sem nú fer í hönd, verður ýmsum kerfum bætt við leikinn, grafíkin uppfærð og núverandi kerfi bætt. Auk þess mun leikurinn fara í gegnum ítarlegar alfa prófanir þar sem valdir spilarar munu geta prófað leikinn í samstarfi við framleiðsluteymið.

Markaðssetning leiksins mun hefjast í lok þessa árs en áætlað er að leikurinn verði gefinn út á næsta ári.

Ávinningur verkefnisins er margvíslegur. Auk þess vera komið með spilanlega útgáfu af leiknum, sem er gríðarstórt skref í átt að útgáfu, þá hefur styrkurinn og sú vinna sem unnin hefur verið á stuðningstímabilinu auðveldað félaginu að ljúka við frumfjármögnun félagsins (e. Seed investment) á árinu 2014 og mun án efa hjálpa félaginu að sækja rekstrarfjármagn síðar.

Hafa ber í huga að útflutningur á tölvuleikjum í gegnum netið er hagkvæmur kostur fyrir íslenska hagkerfið. Tekjur eru í erlendum gjaldeyri og störfin sem verða til eru vel launuð og krefjandi. Hér á landi er að myndast klasi leikjafyrirtækja og mun hvert nýtt fyrirtæki sem nær árangri styrkja klasann og þar með samkeppnisstöðu annarra íslenskra leikjafyrirtækja.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica