Þrívíddarbúnaður fyrir linsur - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

7.5.2015

Lausnin byggir á tæki sem sett er framan á linsur ljósmyndavéla auk hugbúnaðar sem vinnur myndirnar. 

Kúla Inventions Ltd. hefur síðan 2011 þróað þrívíddarbúnaðar fyrir ljósmyndavélar. Í nóvember 2014 kynnti fyrirtækið nýtt tæki á alþjóðlegum markaði. Það kallast Kúla Bebe og er þrívíddarbúnaður fyrir snjallsíma. Það var gert í sambandi við hópfjármögnunarherferð á Kickstarter. Söfnunin var árangursrík og náðist að fjármagna framleiðslu á fyrstu tveimur framleiðsluvörum Kúlu sem munu koma í verslanir víða um heim á vormánuðum 2015.

Heiti verkefnis: Þrívíddarbúnaður fyrir linsur
Verkefnisstjóri: Íris Ólafsdóttir, Kúla Inventions Ltd.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2013
Fjárhæð styrks: 8 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 132001-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Kúla er fyrsta fyrirtækið með þessa tegund lausnar þar sem hægt er að nota venjulega myndavél til að taka þrívíddarmyndir og njóta þeirra með hvaða þrívíddartækni sem er, allt frá gömlu klassísku rauð/bláu gleraugunum til þrívíddarsjónvarpa. Lausnin byggir á tæki sem sett er framan á linsur ljósmyndavéla auk hugbúnaðar sem vinnur myndirnar. Kúla vill bjóða upp á ódýra lausn svo fólk geti notað myndavélar sem það á fyrir til að taka þrívíddarmyndir og þannig uppgötvað áhrif persónulegra þrívíddarmynda.

Nýverið fór Kúla í samstarf við þýskt hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir sýndarveruleikamyndir sem hægt er að skoða í tækjum eins og Google Cardboard og Oculus Rift. Þetta mun opna nýja möguleika í þrívíddarmyndatöku þar sem notandinn getur tekið 360° myndir í þrívídd og leyft öðrum að skoða. Hugmyndin er að notendur geti upplifað nýja staði í sýndarveruleika og tekið myndir á venjulega snjallsíma með hjálp Kúlu Bebe. Þann 28. apríl var verkefnið opnað á Kickstarter og hægt er að fylgjast með framvindunni á www.kula3d.com.

Kúla hefur verið styrkt af Tækniþróunarsjóði frá árinu 2010. Hægt er að fræðast um og forpanta vörur Kúlu á vefsíðu fyrirtækisins.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica