Ný flutningaker fyrir fersk matvæli – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

12.12.2019

Margnota matvælaker eru raunhæfur valkostur fyrir heilan, ofurkældan lax m.t.t. fiskgæða og flutningskostnaðar. 

Megin markmið rannsóknar- og þróunarverkefnisins T-KER (Ný flutningaker fyrir fersk matvæli) var að þróa nýja tegund flutningakera fyrir fersk matvæli. Verkefnið var unnið í samstarfi Sæplasts, Matís, NMÍ, HÍ, HA, Itub og Icefresh. Lagt var upp með að nýju kerin skyldu bæta rúmmálsnýtingu í geymslu og flutningi tómra kera, varðveita fiskgæði og stöflunaröryggi jafn vel eða betur en hefðbundin ker fyrir hvítfisk og einnota frauðplastkassar fyrir lax. Aðalafurð verkefnisins, nýju tvíburakerin, koma í pörum, vega 38 kg, rúma 290 L og eru kerin 7 og 10 cm grynnri en hin algengu 460 L ker (42 cm). Smíðuð hafa verið sérhönnuð mót, sem gera Sæplasti kleift að hefja fjöldaframleiðslu á endanlegri útfærslu tvíburakeranna.

Umfangsmiklum rannsóknum innan verkefnisins hafa verið gerð skil í m.a. tveimur meistararitgerðum, einu handriti að vísindagrein, fjórum erindum á alþjóðlegum ráðstefnum og fimm skýrslum. Algengast er að nota einnota frauðplastkassa við flutning á heilum, ferskum laxi. Niðurstöður þessa verkefnis hafa t.d. sýnt fram á að 32-60 cm djúp, margnota matvælaker eru raunhæfur valkostur fyrir heilan, ofurkældan lax m.t.t. fiskgæða og flutningskostnaðar en m.v. 10 daga geymslu má þó búast við um 0.9-1.6% meiri rýrnun á fiski á botni keranna en í frauðplastkössunum. Sýnt var fram á að hagstæð stöflun tómra tvíburakera skilar sér í um 50-60% bættri rúmmálsnýtingu við flutning tómra kera (m.v. 460 L ker), sem getur skilað sér í um 20% minni umhverfisáhrifum en flutningur á tómum 460 L kerum. Önnur mjög mikilvæg afurð verkefnisins fyrir Sæplast er tilraunaaðstaðan, sem byggð var í verksmiðju fyrirtækisins og nýtist til bæði stöflunar- og hífingarprófa fyrir allar mögulegar kerategundir. Tvíburakerin standast mjög örugglega kröfur ÍST110:2016 um að þola 8 tonna stöflunarálag í 5 mín. Sæplast hefur tryggt sér einkaleyfi fyrir tvíburakerin á Íslandi og í Danmörku og einkaleyfisumsóknir eru í ferli í nokkum öðrum Evrópulöndum, Kanada, USA og Indlandi. Umtalsvert samstarf við notendur niðurstaðna, þ.e. framtíðar notendur tvíburakeranna, hefur þegar átt sér stað innan verkefnisins. Til marks um það hafa gerðar tilraunir hjá Samherja, Icefresh, Samherja fiskeldi, Arctic Fish, HB Granda í Reykjavík og Einhamri í Grindavík af starfsmönnum Sæplasts, Itub, Matís og Háskóla Íslands. Keraleigufyrirtækið Itub hefur þegar pantað 200 fyrstu tvíburakerin, sem afhent verða í október 2019 og verða leigð til viðskiptavina Itub. Sæplast hefur meðvitað haldið að sér höndum við markaðssókn með tvíburakerin til tryggja að framleiðsla muni ekki hindra aðgang að vörunni þá og þegar eftirspurn eykst.

Heiti verkefnis: Ný flutningaker fyrir fersk matvæli
Verkefnisstjóri: Björn Margeirsson
Styrkþegi: Sæplast Iceland
Tegund styrks: styrkur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 35,351 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica