Nýjar húð- og hárvörur með virkum próteinum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.11.2017

Niðurstöður úr þessu verkefni hafa nú þegar verið að hluta til nýttar við lokaþróun á nýrri húðvöru sem búið er að markaðssetja undir vöruheitinu BIOEFFECT EGF +2A Daily Treatment.

ORF Líftækni hefur náð góðum árangri í framleiðslu lífvirkra próteina - frumuvaka - í fræjum erfðabreyttra byggplantna og svo í framhaldi, hreinsun þeirra og markaðssetningu. ORF nýtir próteinin m.a. í hágæða húðvörur sem eru markaðssettar undir vörumerkinu BIOEFFECT af samnefndu dótturfyrirtæki. BIOEFFECT ehf. hefur markaðssett 7 húðvörur með virkum próteinum eftir umfangsmiklar virkniprófanir og samanburðarrannsóknir. BIOEFFECT ehf. er sífellt að þróa nýjungar í formuleringu frumuvaka í húðvörum sem tryggja að próteinin haldi virkni sinni lengi og að varan hafi langan líftíma.. Prótein eru viðkvæm og formuleringar eru því ákveðnum takmörkunum háðar því ekki má skemma virkni próteinanna; þetta hefur því einnig takmarkandi áhrif á mögulegt vöruúrval húðvara. Þorsteinn Loftsson / Lyfjafræðideild HÍ, samstarfsaðili í verkefninu, hefur langa reynslu af formuleringum lífvirkra efna og hefur m.a. mikla þekkingu á notkun svokallaðra cyclodextrina (CD) í formuleringum, en CD eru hringlaga sykursameindir sem hafa m.a. verið nýttar til að hjúpa (vernda) litlar lyfjasameindir.

Heiti verkefnis: Nýjar húð- og hárvörur með virkum próteinum
Verkefnisstjóri: Jón Már Björnsson, BIOEFFECT ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 132078061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið þessa verkefnis var í raun þríþætt, í fyrsta lagi að þróa hraðvirka skimunaraðferð til að kanna stöðgandi áhrif nýrra efna/efnablandna á frumuvakana; í öðru lagi að kanna stöðgandi áhrif nýrra efna/efnablandna á frumuvakana í húðvörum og þá sér í lagi hvort nýta mætti cyclodextrin (CD) sem stöðgandi efni fyrir prótein í húðvörum, og í þriðja lagi að nýta niðurstöður verkefnisins til að búa til nýjar húðvörur fyrir markaðssetningu á BIOEFFECT-mörkuðum.

Settar voru upp tvær hraðskimunaraðferðir, Thermofluor sem byggir á flúorljómun SYPRO-litarefnis við afmyndun markpróteinsins og Stargazer sem byggir á ljósgleypnigildum sem breytast þegar markpróteinið afmyndast. Afmyndunin er fengin fram með auknum hita. Með þessum aðferðum var hægt að hraðskima mörg hjálparefni og kanna stöðgandi áhrif þeirra fyrir vissa frumuvaka en ekki alla. Töluvert samræmi var milli aðferða og almennt virtust áhrifin vera yfirfæranleg milli frumuvaka. Hinsvegar kom í ljós að ekki reyndist hægt að mæla hvort cyclodextrin hefðu stöðgandi áhrif á frumuvaka í húðvörum. Margar samsetningar voru prófaðar en þær skiluðu ekki marktækum niðurstöðum, hvorki í skammtíma- né langtímastöðugleikamælingum. Mörg önnur hjálparefni voru prófuð í mismunandi samsetningum í langtímastöðugleikamælingum, bæði fyrir glært serum sem og fyrir hvítt serum, í allt að 12 mánuði við mismunandi hitastig, frá 4°C til 37°C. Miklu magni upplýsinga var safnað saman sem byggði upp enn meiri sérfræðiþekkingu á því hvaða efnasamsetningar virka best fyrir frumuvaka í húðvörum. Margar fleiri stuttar og langtíma-rannsóknir hafa verið settar af stað í ljósi niðurstaðna sem fengust úr verkefninu. Augljóst er að þekkingin sem fékkst úr verkefninu mun nýtast áfram í þróun á nýjum húðvörugrunnum í framtíðinni.

Niðurstöður úr þessu verkefni hafa nú þegar verið að hluta til nýttar við lokaþróun á nýrri húðvöru sem búið er að markaðssetja undir vöruheitinu BIOEFFECT EGF +2A Daily Treatment. Varan hefur þegar verið kynnt fyrir dreifiaðilum BIOEFFECT á flestum okkar mörkuðum, víðsvegar um heiminn en viðbrögðin, bæði umfjöllun og sala, hefur verið mjög jákvæð;reiknað er með að markaðshópurinn fyrir þessari vöru taki henni fagnandi og að sala á henni verði góð, eins og fyrstu vísbendingar gefa til kynna (frá Þýskalandi og Frakklandi). Verkefnið mun því skila fyrirtækinu efnahagslegum ávinningi. Þessu til viðbótar er þróun á hvítu serumi (handlotion) langt komin sem ætlunin er að markaðssetja á næstu misserum. 

Afrakstur

Húðvaran „BIOEFFECT EGF +2A Daily Treatment” byggir að hluta á niðurstöðum úr þessu verkefni.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica