Nýting minkafitu - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.9.2015

Meginmarkmiðið var að þróa framleiðsluferli fyrir hreinsun minkafitunnar, vinnslu jurta og íblöndun við minkaolíu og greiningu á afurðum til að tryggja gæði vörunnar.

Nýting minkafitu var samvinnuverkefni Urðarkattar ehf. og Matís. Auk þeirra tóku þátt í verkefninu Arna Ýr Arnarsdóttir (þá viðskiptafræðinemi), Sigurjón Pálmi Einarsson dýralæknir í Svíþjóð og Myndlistarskóli Akureyrar.

Heiti verkefnis: Nýting minkafitu
Verkefnisstjóri: Sólborg Una Pálsdóttir, Urðarketti ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2013-2014
Fjárhæð styrks: 14 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131829-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnið fólst í því að kanna möguleika á að nýta minkafitu sem fellur til við skinnaverkun, með gerð minkaolíu sem væri uppistaðan í afleiddum vörum svo sem smyrsli og leðurfeiti. Meginmarkmiðið var að þróa framleiðsluferli fyrir hreinsun fitunnar, framleiðsluferli fyrir vinnslu jurta og íblöndun við minkaolíu og greiningu á afurðum til að tryggja gæði vörunnar. Auk þess skyldi gera könnun og greiningu á möguleikum á að koma slíkri vöru eða vörum á markað.

Í umsókninni var lögð áhersla á að þróa vörur fyrir markhópinn hestamenn með þróun á smyrsli sem gagnast gæti við múkki, smásárum og þurrkablettum og hins vegar að þróa leðurfeiti. Þetta hefur verið gert en að auki, vegna eftirspurnar, voru þróaðar húðvörur fyrir fólk; sárabót og hælabót.

Þróuð var aðferð og vinnslulína við hreinsun minkafitu ásamt þurrkun jurta og íblöndun þeirra við minkaolíu. Gerðar voru markaðskannanir á Íslandi og Svíþjóð til að kanna möguleika á að setja á markað vörur fyrir hestamenn úr minkaolíu og íslenskum jurtum ásamt því að móta markaðsáætlun fyrir slíkt verkefni. En líklega er áþreifanlegasti ávinningurinn og árangur verkefnisins sá að nú þegar eru komnar fjórar vörutegundir á markað sem uppfylla lög og reglugerðir og eru farnar að seljast víða. Nú liggur það í okkar höndum að kynna vöruna og auka hlutdeild á markaði. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica