Painimprove – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

24.6.2019

Markmiðið er að notendur fræðist um langvinna verki og nái betri tökum á heilsu sinni og auki starfsgetu sína. 

Langvinnir útbreiddir verkir eru gríðarlegt heilsufarsvandamál á heimsvísu. Rannsóknir benda til þess að allt að 20% mannkyns þjáist af langvinnum verkjum og um 11% þjáist af langvinnum útbreiddum verkjum. Langvinnir verkir valda miklum þjáningum og geta haft veruleg áhrif á starfsgetu, lífsgæði og andlega heilsu. Kostnaður heilbrigðiskerfa og atvinnulífs er einnig gríðarlegur vegna örorku og vinnutaps. Hingað til hefur ekki verið til á markaði veflausn sem hentar þessum hópi. Painimprove er tilraun til að mæta markaðsþörf sem hingað til hefur verið óleyst. Vefsvæði Painimprove er byggt á fjarkennsluumhverfi og gagnabanka sem skráir framvindu notenda á vefsvæði og í fræðslu. Hver notandi á sitt einkasvæði þar sem hann getur fylgst með framgangi sínum í fræðslu, svörum á spurningalistum, markmiðssetningum, dagbók og skráningu á daglegri líðan. Markmiðið er að notendur fræðist um langvinna verki og nái betri tökum á heilsu sinni og auki starfsgetu sína. Aðgangur að vefnum verður seldur í áskrift og tekjumöguleikar verkefnisins eru miklir í samræmi við markaðsstærð. Auk þess geta fjölmörg afleidd tækifæri aukið tekjur verulega. Á þeim þremur árum sem verkefnið hefur staðið yfir hefur flestum þáttum þess verið lokið að mestu eða að hluta. Verkefnið er komið á þann stað að búið er að leysa úr helstu álitamálum varðandi framsetningu fræðsluefnis, hönnun og uppbyggingu ytri hluta vefs og einnig er búið að hanna og setja upp stærstan hluta innri vefs. Öll vinna hefur farið fram í náinni samvinnu við rýnihópa fólks með langvinna verki. Framleiðsla fræðsluefnis fyrir fyrstu markaðshæfu útgáfu er nærri lokið. Painimprove mun nú sækja frekara fjármagn með styrkjum og hjá fjárfestum til að ljúka markaðshæfri útgáfu painimprove.com.

Heiti verkefnis: Painimprove
Verkefnisstjóri: Eggert S. Birgisson
Styrkþegi: Painimprove ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 44.452.000 kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica