Pyngjan - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjórans

2.12.2016

Í verkefninu hefur verið þróuð heildstæð greiðslulausn fyrir snjallsíma.

Styrkur frá Tækniþróunarsjóði skiptir sköpum
Advania MobilePay ehf. (áður DH samskipti ehf.) hefur með verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði þróað heildstæða greiðslulausn fyrir snjallsíma sem gerir annars vegar þjónustuaðilum, s.s. bönkum og fjarskiptafyrirtækjum, kleift að dreifa greiðsluappi til notenda og þjónusta þá. Hins vegar gerir hún aðilum í greiðsluþjónustu, s.s. færsluhirðum, mögulegt að veita söluaðilum nauðsynlega þjónustu þannig að þeir geti tekið við greiðslum með greiðsluappinu í símanum.

Heiti verkefnis: Pyngjan (hét áður Borgarinn)
Verkefnisstjóri: Dagný Halldórsdóttir, Advania MobilePay ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 3
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131944-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnisstyrkur Tækniþróunarsjóðs var veittur í þrjú ár og nam samtals 37,5 m.kr.

Þessi stuðningur frá Tækniþróunarsjóði gerði frumkvöðlafyrirtækinu DH samskiptum kleift að þróa lausnina og hefja dreifingu á henni til notenda undir nafninu Pyngjan. Jafnframt var gerður samningur við færsluhirði um uppsetningu og afnot af greiðslukerfislausninni og að veita söluaðilum nauðsynlega þjónustu til að taka við greiðslum með Pyngjunni. Stuðningur Tækniþróunarsjóðs gerði það jafnframt mögulegt að halda áfram að þróa lausnina og bæta við fjölmörgum notkunarmöguleikum.

Tímamót urðu í verkefninu fyrr á þessu ári þegar Advania-samstæðan og Síminn urðu hluthafar í félaginu. Jafnframt var nafni þess breytt í Advania MobilePay.  Með aðkomu nýju hluthafanna og innspýtingu umtalsverðs fjármagns sköpuðust forsendur til að færa verkefnið af frumkvöðlastigi og yfir á næsta stig sem mun fela í sér enn frekari notkunarmöguleika og markvissa markaðssetningu. Þá hafa þegar verið stigin fyrstu skref í að koma lausninni á framfæri erlendis því frummat erlendra sérfræðinga leiddi í ljós að þessi greiðslulausn hefði ýmislegt til að bera sem hliðstæðar erlendar greiðslulausnir skortir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica