Samgöngulausnir fyrir heimskautasvæði - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.5.2017

Árið 2013 fékk Arctic Trucks styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís til að vinna að nýjum lausnum í samgöngum á heimsskautasvæðum. Arctic Trucks hefur í um 10 ára skeið tekið þátt í verkefnum á Suðurskautslandinu þar sem bílar breyttir af fyrirtækinu hafa verið notaðir af starfsmönnum  rannsóknarstöðva sem og í fjölmörgum leiðöngrum. Markmið þessa verkefnis var að þróa tilbúna lausn farartækja sem myndi í flestum tilfellum geta komið í stað beltaknúinna farartækja, væru einföld í notkun og mun eyðslugrennri en þau tæki sem nú eru notuð.

Heiti verkefnis: Samgöngulausnir fyrir heimskautasvæði
Verkefnisstjóri: Hinrik Jóhannsson, Arctic Trucks Ísland ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 29,675 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131715061

   VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.Arctic-Trucks

Alþjóðlegur áhugi á heimsskautasvæðum hefur farið vaxandi á undanförnum árum, en mikill kuldi, einangrun og hrikalegt landslag gerir samgöngur mjög erfiðar á þeim slóðum. Í áratugi hafa beltaknúin farartæki verið aðal flutningsmáti, og þá aðallega tæki sem ættir eiga að rekja til gamalla hernaðarfarartækja. Þessi ökutæki eru hægvirk, eyða miklu eldsneyti og hafa mikil umhverfisáhrif.

Arctic Trucks er viðurkenndur leiðtogi á heimsvísu í þróun bíla fyrir erfiðar aðstæður, og félagið hefur þróað og sannreynt samgöngutækni fyrir heimskautasvæðin. Arctic Trucks hefur meðal annars styrkt stöðu sína á alþjóðavettvangi með fjölda hraðameta með farartækjum sem ferðast á landi á Suðurskautinu. Yfir 20 bílar frá Arctic Trucks eru nú þegar í notkun á Suðurskautslandinu og því liggur fyrir talsverð reynsla af notkun þeirra. Á Suðurskautinu eru starfandi um 60 rannsóknarstöðvar og þar eru í notkun 300-400 beltatæki í dag. Það liggur því fyrir að talsverður markaður er fyrir sérbúin farartæki af þessum toga.

Með hjálp þessa styrks voru vonir bundnar við að Arctic Trucks tækist að klára þróun þessarar tækninýjungar, sem og rannsókn og þróun á aðferðafræði fyrir fjöldaframleiðslukerfi fyrir þessi farartæki á Íslandi.

Verkefnið var unnið að tæknideild Arctic Trucks International á Íslandi og leiddi Hinrik Jóhannsson framkvæmd þess. Verkefnið var takmarkað við þróun tveggja tegunda ökutækja með mismunandi notkunarsvið, annars vegar 4X4 jeppa en hins vegar 6X6 jeppa með meiri burðargetu. Verkefnið var unnið frá 2013 til 2017.

Við hönnun farartækja til notkunar við þessar erfiðu aðstæður er hvað mikilvægast að huga að áreiðanleika og öryggi. Áhersla var því lögð á að hanna og þróa íhluti fyrir breytingarnar sem stæðust kröfur um áreiðanleika. Margar nýjar lausnir hafa verið hannaðar og smíðaðar, svo sem drifbúnaður, grindur, hásingar og fjöðrun, og voru þessar lausnir meðal annars prófaðar í leiðöngrum á Suðurskautinu í kringum síðustu áramót. Þá má sem dæmi nefna að Arctic Trucks hóf samstarf við finnska dekkjaframleiðandann Nokian um framleiðslu á 44 tommu dekki sem sérstaklega er hannað með þarfir og reynslu Arctic Trucks í huga. Dekk þetta er nú þegar komið í framleiðslu og mun koma í sölu á næstu vikum. Þessar nýju lausnir eru núna í framleiðslu hjá Arctic Trucks. 

Vinna við þetta verkefni hefur gefið Arctic Trucks tækifæri til að koma framleiðslu sinni á þessum sérbúnu bílum á nýtt stig. Mjög margt hefur áunnist en enn er vinna eftir til að um 100% tilbúna vöru sé að ræða. Sú þekking sem vinna þessa verkefnis hefur gefið, auk reynslu Arctic Trucks við notkun bílanna við þessar aðstæður skipta Arctic Trucks gríðarlega miklu máli. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica