Space Stallions / Unknown Galaxy – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

23.1.2019

Tölvuleikjafyrirtækið Lumenox ehf. hefur lokið við gerð leiksins Khanate, sem er bæði kunnuglegur og frumlegur í senn.

Tölvuleikjafyrirtækið Lumenox ehf. hefur lokið við gerð leiksins Khanate, sem er bæði kunnuglegur og frumlegur í senn. Í mjög grófum dráttum gengur leikurinn útá að sá sem spilar leikinn fer um áður óþekkt sólkerfi hvar hann leggur undir sig plánetur. Þar vinnur hann hráefni og hefur framleiðslu á ýmsum vörum sem svo styrkja stöðu hans.

Skip hans er þeim eiginleikum gætt að á því má framleiða það sem kann að koma að notum við það að þenja út og styrkja sitt veldi. Khanate er einmitt orð sem kemur frá fyrrum mongólska heimsveldinu og þýðir það veldi (e. empire). Persónur í leiknum eru teiknaðar þannig að litið er til mongólska uppruna.

Framleiðslan á leiknum hefur gengið vel í alla staði. Einn af fjölmörgum áhugaverðum þáttum leiksins er sá að allur heimurinn er skapaður með algrím sem skapar öll sólkerfi með öllum plánetum í hverju sólkerfi um sig auk allra hráefna sem eru til staðar á hverri plánetu. Þessi aðferðarfræði gerir fyrirtækinu kleift að hafa heiminn nánast án takmarkana, alveg sama hvar leikmaðurinn ert staddur í heiminum þá er allt þekkt útfrá algríminu en möguleikar á sólkerfum eru 4,6 trilljónir. Takmarkalaust að því er virðist en þó lýtur þetta fræðilegum takmörkunum því að ekki er hægt að skapa stærri heim en hver tölva leyfir.

Til að byrja með verður leikurinn gefinn út í svokallaðri lokaðri útgáfu. Markmiðið er að leita samstarfs við útgefendur í Bandaríkjunum en Lumenox hefur komist í kynni við nokkra slíka, eða fljótlega eftir að fyrirtækið var stofnað og sendi frá sér sinn fyrsta leik sem var Aaru's Awakening, sem naut viðurkenningar. Í framtíðinni, ef Khanate nær vinsældum, stefnir Lumenox á að hlaða fleiri hlutum í leikinn, stækka hann og fara í útgáfu á iPad og PlayStation. Fjölmargar hugmyndir í því sambandi eru fyrirliggjandi.

Heiti verkefnis: Space Stallions / Unknown Galaxy
Verkefnisstjóri: Burkni J. Óskarsson
Styrkþegi: Lumenox ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur     
Styrkár: 2015-2018
Fjárhæð styrks: 45 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 153287

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica