Starborne – framleiðsla fyrir alþjóðlegan markað - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra.

18.5.2017

Framleiðsla á Starborne-leiknum (áður PROSPER) með hjálp Tækniþróunarsjóðs hefur hjálpað félaginu að laða til sín fjárfesta og koma leiknum á þann stað að tekjumyndun geti hafist.

Solid Clouds er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem er að framleiða tölvuleikinn Starborne (áður PROSPER) fyrir alþjóðlegan markað. Starborne er þrívíður herkænskuleikur sem gerist í geimnum og er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara yfir netið, en hver leikur tekur um sex mánuði. Leikmenn byrja með eina geimstöð hver, á risastóru korti með 1,5 milljónir reita. Spilarar keppast um að auka framleiðslugetu sinna stöðva, svo þeir geti byggt sem stærstan flota, en hann má svo nota til að leggja undir sig stærra svæði. Leikmenn geta myndað bandalög sem berjast um yfirráð og endar leikurinn á því að eitt bandalag stendur uppi sem sigurvegari. Leikurinn er ókeypis en hægt er að kaupa spilapeninga, sem nýta má m.a. til að flýta framleiðslu. Markaðurinn fyrir þessa gerð leikja er að velta um milljarði dala og fer hratt vaxandi. Starborne byggir á þaulreyndum og vel heppnuðum leikreglum en kemur þó með ýmsar nýjungar eins og t.d. ný bardagakerfi og einstakt viðmót sem veitir spilurum mun betri yfirsýn á kortinu. Leikurinn er smíðaður í Unity sem mun auðvelda framleiðendum að gefa hann einnig út fyrir IOS og Android. 

Heiti verkefnis: Starborne (áður PROSPER) – framleiðsla fyrir alþjóðlega markað
Verkefnisstjóri: Tómas Sigurðsson, Solid Clouds ehf.
Tegund styrks: Verkefnastyrkur
Styrkár: 2015-2016
Fjárhæð styrks: 30 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 152967-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Solid Clouds setti sér það markmið í upphafi að búa til leik sem myndi vekja eftirtekt, aðdáun og ávinning fyrir hluthafa og íslenskt samfélag. Það markmið er að nást. Á stuðningstímabilinu hefur leikurinn fengið nafn, viðmótið hefur verið ítrað og grafíkin uppfærð með hágæða þrívíddarlíkönum. Fjölda leikkerfa hefur verið bætt við, önnur fengið ítrun eða jafnvel verið endurgerð að fullu. Í hönnunar- og þróunarferlinu er mjög mikilvægt að fá endurgjöf frá spilurum til að réttar ákvarðanir séu teknar. Með það í huga hafa á stuðningstímabilinu verið haldnar fimm alfa prófanir þar sem spilarar víðsvegar um heiminn hafa fengið tækifæri til að spila leikinn. Áhugi spilara og sú endurgjöf sem þeir hafa veitt þróunarteyminu hefur verið langt umfram væntingar. Til að mynda skráðu yfir tíuþúsund áhugasamir spilarar sig fyrir þátttöku í prófununum.

Fimmtu alfa-prófun Starborne lauk í mars sl. og er óhætt að segja að þar hafi gæði leikhönnunar og tæknilegrar útfærslu Starborne endanlega verið staðfest. Prófunin var án efa sú best heppnaða til þessa og fór þátttaka spilara fram úr björtustu vonum en hlutfall þeirra sem spiluðu enn leikinn (e. retention) eftir einn dag var 51%, 28% eftir sjö daga og 21% eftir mánuð. Til að setja þetta í samhengi eru hlutföllin ríflega tvöfalt hærri en gengur og gerist á markaðnum. Þetta er sérstaklega gleðilegt, sé haft í huga að leikurinn á enn inni uppfærslur og ítranir sem munu gera hann enn áhugaverðri.

Spilatími virkra spilara í Starborne er einnig mjög mikill eða um 150 mín á dag. Reynslan úr öðrum leikjum hefur sýnt fram á sterka tengingu á milli daglegrar spilunar og eyðslu spilara í leikjum. Hátt hlutfall þeirra sem spila leikinn áfram, langur spilatími og tiltölulega lítill kostnaður við öflun nýrra viðskiptavina eru allt vísbendingar um að Solid Clouds muni í fyllingu tímans verða mjög arðsamt fyrirtæki.

Á næstu vikum mun sjötta alfa-prófunin hefjast, en í henni verða greiðslukerfin virk. Það verður því um sögulegan áfanga að ræða þegar fyrstu tekjur félagsins koma í hús.

Fjárhagslegur stuðningur Tækniþróunarsjóðs og ekki síður sú viðurkenning sem í slíkum stuðningi felst, hefur reynst félaginu ómetanlegur við þróun á leiknum og við öflun á því hlutafé sem þarf til að þróa slíkan leik.

Listi yfir afrakstur verkefnisins: 

Innlend umfjöllun

Erlend umfjöllun









Þetta vefsvæði byggir á Eplica