Talning í vatnsstraumi - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

17.10.2017

Ávinningur af verkefni Vaka hf. er mikill þar sem hin nýja tækni gerir rekstraraðilum í fiskeldi mögulegt að telja fisk nákvæmlega við aðstæður sem ekki var mögulegt áður. 

VAKI markar upphaf að nýjum vöruflokki á heimsvísu -
grunnurinn að þróun nýrra lausna og afurða fyrir fiskeldið

Vaki Fiskeldiskerfi ehf. sem er í dag orðinn hluti af Pentair Aquatic Eco Systems, stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem starfar á nokkrum sviðum meðal annars innan iðnaðar, orku, matvæla- og vatnsmeðhöndlunar hvers konar. Með kaupunum er kominn aukinn fókus á fiskeldið innan fyrirtækisins og sterkari staða á helstu mörkuðum. Vaki hefur verið leiðandi innan fiskeldisins í talningu og stærðarmælingu á lifandi fiski í mörg ár og áfram verður mikil áhersla á markaðstengda vöruþróun og lausnir á þeim áskorunum sem eru í iðnaðinum hverju sinni. Nýlega lauk stórum kafla í vöruþróun hjá Vaka með nýrri vörulínu sem getur talið lifandi fiska í vatni, svokallaðir fullvatnsteljarar.

Lýsing á verkefninu
Síðastliðin 3 ár hefur Vaki með styrk frá Tækniþróunarsjóði unnið að þróun á nýrri gerð teljara. Í fullvatnsteljurum er fiski dælt í lokuðu röri og hann talinn þegar hann flæðir framhjá skynjara. Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að þær tilraunir sem hafa verið gerðar á markaðinum til að leysa þessa þörf hafa ekki gefið viðundandi niðurstöðu. Sú lausn sem Vaki hefur unni að felur í sér að flæði og þéttleiki fisks inn í teljaraeiningu er stjórnað þannig að lítil sem engin skörun fiska á sér stað. Einnig að þróa öfluga háhraða-tölvumyndvinnslu til að greina og telja fiskinn.

Þessi nýja tækni nýtist á öllum stigum fiskeldisins. Allt frá seiði upp í sláturfisk. Lögð var áhersla á að útfæra lausnirnar í mismunandi stærðum með viðeigandi afkastagetu. Fyrst voru hugmyndirnar útfærðar og prófaðar í litlum mælikvarða sem hentaði við meðhöndlun á smáseiðum, hrognkelsum og rækjulirfum. Við meðhöndlun á slíkum fiski er notast við dælu og rörastærðir á bilinu 1 - 4 tommur (25 – 100 mm í þvermál). Þegar árangur hafði náðst með minni tækin voru þær lausnir útfærðar fyrir stærri teljara fyrir kvíaeldi. Þar sem unnið er með fisk frá 1 – 9 kg. og lagnastærðir allt upp í 500 mm þvermál.

Ávinningur af verkefninu er mikill þar sem þessi nýja tækni gerir rekstraraðilum í fiskeldi mögulegt að telja fisk nákvæmlega við aðstæður sem ekki var mögulegt áður. Nákvæmar upplýsingar um fiskfjölda á hverju stigi framleiðslunnar er afar mikilvægt við stýringu og rétta ákvörðunartöku eins og t.d. við fóðurgjöf og tímasetningu slátrunar. Að fiskurinn sé umlukinn vatni í öllu ferlinu frá upphafi til enda tryggir góða meðhöndlun á fiskinum.

Heiti verkefnis: Talning í vatnsstraumi
Verkefnisstjóri: Sverrir Hákonarson, Vaka fiskeldiskerfi hf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3 ár
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 132014061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Teljarar og búnaður frá fyrstu stigum verkefnisins eru tilbúnir og orðnir að markaðsvöru. Þar má nefna teljara til talningar á rækju, hrognkelsum og smáseiðum. Svokallaðir PICO-counters en þeir eru komnir í fulla notkun hjá viðskiptavinum, meðal annars í rækjueldi í Bandaríkjunum, hjá hrognkelsaframleiðendum í Skotlandi og Íslandi og laxaseiðaframleiðendum á Íslandi. Þá hefur verið gert samkomulag við Sölvtrans AS eina af stærstu brunnbátaútgerðum Noregs. Samkomulagið snýr að prófunum á stærri gerð fullvatnsteljara með það að markmiði að útbúa þeirra skip til frambúðar með slíkum kerfum. Þess má geta að Sölvtrans er með yfir tuttugu teljara frá Vaka af öðrum gerðum í sínum skipum. Það er mikil viðurkenning falin í því að Vaki skuli vera valin til samstarfs um þróun á nýrri tækni fyrir brunnbáta.

Stuðningur Tækniþróunarsjóðs við verkefnið hefur skipt Vaka miklu máli og gert það mögulegt að halda einbeitingu og nauðsynlegri samfellu í þróunarstarfinu sl. 3 ár. Það er mat starfsmanna Vaka að með þessu verkefni sé markað upphaf af nýjum vöruflokki hjá Vaka. Í því felast mikil tækifæri og er grunnurinn að þróun nýrra lausna og afurða fyrir fiskeldið á heimsvísu.

Þátttakendur og hlutverk þeirra í verkefninu Vaki fiskeldiskerfi ehf er eini formlegi aðilinn að verkefninu, en hefur leitað samstarfs við ýmsa aðila úr röðum viðskiptavina við mótun og úrvinnslu verkefnisins. Þannig hafa aðilar frá áðurnefndri brunnbátaútgerð Sölvtrans AS í Noregi komið að mótun tæknilegra markmiða, seiðaeldisstöðin Ísþór hf. í Þorlákshöfn og bleikjueldið Náttúra fiskirækt í Þorlákshöfn hafa útvegað aðstöðu til prófana á 2, 4, 6 og 12 tommu teljara, auk þess sem Marine Harvest í Skotlandi útvegaði aðstöðu til prófunar á 16 tommu teljara. Fyrirtæki í rækjueldi, Trushrimp í Bandaríkjunum hefur unnið með okkur í prófunum og eru farnir að nota teljarana í sinni framleiðslu. Stofnfiskur á Suðurnesjum var lykilaðili í prófunum á minni teljurunum og eru einnig komnir með teljara. Þá hefur samstarf við undirverktaka einnig skipt miklu máli.

Faglegur afrakstur
 Við mat á faglegum árangri má fyrst nefna reglun- og stýringu á þéttleika fisks inn að teljaranum. Þar hefur verið þróaður vél- og hugbúnaður til að skammta vatnsmagn í framhjáhlaup (blöndun) og skynjara til að mæla þéttleikann ásamt hugbúnaði til reglunar. Þessi tækni nýtist bæði í smáum og stórum lausnum, 1 – 20 tommu lögnum. Þá hefur verið þróuð lausn til að taka myndir í röri sem í eðli sínu er með ólínulegt yfirborð og þeim varpað í plan. Þetta gerir kleift að vera með búnað sem að er minni umfangs en hefðbundnar lausnir bjóða upp á. Tilraunir og notkun á kerfinu í 1 – 6“ lögnum hefur staðfest virkni þess og kvarðanleika upp í stærri kerfi. Minni kerfin eru komin notkun hjá viðskiptavinum á meðan stærri kerfin eru enn í prófunum. Stærri kerfin kalla á meiri fjárfestingar og því eðlilegt að það muni taka lengri tíma í innleiðingu.

Góður árangur hefur náðst á atriðum sem í upphafi þóttu krefjandi eins og vinnsluhraði í hugbúnaði og næmni í myndvinnslu þar sem er verið að fást við gegnsæjan fisk/rækju og mikinn þéttleika. Á þessum sviðum hefur nást góður árangur og allar tæknilegar hindranir yfirstignar á verkefnistímanum.

Ein einkaleyfisumsókn er kominn í skráningarferli, sem varðar tækni sem þróað er í verkefninu „Density Control“ .

Þau viðskiptalegu markmið að árleg sala af kerfunum nái 100-130 milljónir kr. hafa náðst. Einnig hefur staða Vaka í sölu teljara í brunnbátum aukist á sl. 3 árum og sú staðreynd að geta boðið upp á lausnir í fullvatnstalningu mun bæta stöðu Vaka enn frekar. Þessar lausnir hafa opnað leiðir inn á nýja markaði svo sem rækjueldi og nýjar eldistegundir eins og hrognkelsi. Rækjueldið mun tæknivæðast á næstu árum og markaðurinn fyrir teljara þar með stækka. Nánari upplýsingar má finna á netinu (http://www.vaki.is/products) um teljarana, þ.e. Pico–counter sem telur þrjár gerðir.

Helstu markmið og niðurstöður, árangur og ávinningur
Verkefninu er ætlað að svara óskum fiskeldis- og útgerðarmanna brunnbáta um þróun nýrra teljara á sviði sem Vaki hefur ekki boðið lausnir á áður, þ.e. talningu á fiski í vatnsstraumi í lokuðu röri. Þörf á nákvæmum og áreiðanlegum teljurum hefur aukist með tilkomu nýrra kynslóða brunnbáta og mikilli stækkun laxeldisins. Um 100 brunnbátar eru gerðir út í Noregi og fara þeir stækkandi ásamt því að gæða- og afkastakröfur aukast sífellt. Þá hefur verkefnið einnig aukið möguleika Vaka á talningu á öðrum tegundum eins og hrognkelsum og rækju.

Þróaðir voru teljarar til að telja smáseiði upp í fullvaxta sláturfisk sem eru í kafi í vatni og frávik í talningu er innan við 2% að jafnaði. Beitt er tölvumyndvinnslutækni og reglunaraðferðum til að stýra flæði á fiski við dælingu. Afköst og dreifing á fiski eru bestuð með tilliti til nákvæmni á talningu og stærðarmælingu. Sú staðreynd að fiskurinn er öllum stundum í flutningsferlinu í kafi í vatni tryggir góða meðferð á fiskinum. Núverandi lausnir krefjast þess að fiskurinn sé að mestu tekin úr vatninu fyrir talningu. Það þýðir að ekki er alltaf hægt að framkvæma talningu og stærðarmat en það er lykilatriði í iðnvæddu fiskeldi.

Verkefnið er á sviði reglunartækni, straumfræði, vélhlutahönnunar, myndvinnslu og hugbúnaðargerðar.

Ávinningur af verkefninu er; ný tækni og þekking, ný vara og veltuaukning auk sterkari samkeppnisstöðu. Niðurstöður sem liggja fyrir nú við lok verkefnisins eru allar í takti við upphafleg markmið þess. Tveggja, fjögurra og sex tommu teljarar eru allir orðnir að markaðsvöru og eru notaðir við talningu á rækju og smáseiðum. Þá hefur búnaður til stýringar á þéttleika fisks að teljara verið þróaður og virkni hans sannreyndur. Frumgerðir af stærri teljurunum eru í þróun og áætlanir um framhald prófana og notkunar þeirra í brunnbátum liggja fyrir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica