Þróun mannvirkja úr trefjagleri og steinull – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

11.10.2019

Eðli hugmyndarinnar um mannvirki úr trefjagleri/plasti og steinull er bylting á hefðbundnum byggingaraðferðum. 

Andri Þór Gunnarsson, Haraldur Ingvarsson, Helga Hinriksdóttir og Regin Grímsson tóku þátt í Nýsköpunarkeppni sjónvarpsins Toppstöðin haustið 2015 en í lokaþætti keppninnar hlaut hugmynd Regins Grímssonar um nýja gerð lokaðra byggingareininga úr trefjastyrktu plasti með kjarna úr steinull flest atkvæði þjóðarinnar. Síðan þá hefur teymið unnið þrotlaust að þróun hugmyndarinnar og rannsóknum. Eðli hugmyndarinnar um mannvirki úr trefjagleri/plasti og steinull er bylting á hefðbundnum byggingaraðferðum og hefur þróunarvinnan leitt okkur langt frá fyrstu frumgerð sem byggð var til prófunar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands árið 2017. Helsta breytingin varðar trefjaplastið sjálft en í upphafi var notað samskonar trefjaplast og notað er í bátasmíði en það er eldfimt og brennur með dökkum reyk. Eftir mikla leit og prófanir bæði innanlands sem og erlendis fannst efni sem þróað var fyrir lestarvagna og uppfyllir brunakröfur, efnið er eldtefjandi og reykir ekki ásamt því að uppfylla staðal A2-s2,d0. Þetta efni hefur enga takmörkun á notkun í byggingariðnaði samkvæmt Evrópuskilgreiningu. Fibra hefur fengið einkaleyfi á framleiðsluaðferð sinni á Fibra-húseiningum á Íslandi og er með einkaleyfisumsóknir í umsóknarferli í Evrópu og Bandaríkjunum. Tækniþróunarsjóður veitti Fibra ehf. verkefnisstyrk vorið 2016 og Vöxt ári síðar. Af þeim fjölmörgu sem veitt hafa fyrirtækinu ómetanlega hjálp og hvatningu er á engan hallað þegar sagt er að án aðkomu Tækniþróunarsjóðs og dyggum stuðningi Lýðs S. Erlendssonar sérfræðings og Sigurðar Björnssonar sviðsstjóra Rannsóknar- og Nýsköpunarsviðs hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika og eru þeim hér með færðar kærar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning og leiðsögn.

Heiti verkefnis: Þróun mannvirkja úr trefjagleri og steinull
Verkefnisstjóri: Regin Eysturoy Grímsson
Styrkþegi: Fibra ehf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica