Uppbygging markaðsinnviða vegna markaðssóknar eBBI - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnastjóra.

14.10.2020

Brandr hlaut eins árs markaðsstyrk Tækniþróunarsjóðs (Rannís) 2019-20 fyrir verkefnið; Uppbygging markaðsinnviða vegna markaðssóknar eBBI.

Verkefnið fólst í þróun markaðsinnviða fyrir eBBI Energy Branding Benchmarking Index, einu vörumerkjavísitölu í heiminum sem er sértæk fyrir orkugeirann. Lagður var grundvöllur að uppbyggingu markaðsinnviða, m.a. með ítarlegum markaðsrannsóknum, markaðsáætlun sem skilgreinir markhóp og kauppersónur, skilgreiningu á vörumerkinu eBBI; fyrir hvað það skuli standa og hvernig vörumerkið talar til viðskiptavina. Afraksturinn er ítarleg markaðsskýrsla, vörumerkjahandbók, markaðsefni svo sem vefsíða, skýrslur, auglýsingar og kynningarefni auk markaðsáætlunar.Logo tækniþróunarsjóðs

Markaðsáætlun tilgreinir inngöngumarkaði og söluleiðir og vefsíðan útskýrir virkni og kosti hennar á sjónrænan og aðlaðandi hátt. Útlit og sniðmát fyrir markaðsefni var hannað m.t.t. fyrirfram skilgreindrar birtingamyndar vörumerkisins, lita, tóns, áferðar og stíls. Sú vinna sem styrkveiting Tækniþróunarsjóðs gerði mögulega felur í sér að þeir markaðsinnviðir sem markaðssetning eBBI mælitækisins krefst eru að mestu leyti tilbúnir. Það mun gera kynningu á vörunni auðveldari og skilvirkari. Þegar söluferli eBBI kemst á skrið verður afrakstur þessa verkefnis hagnýttur og mun styðja við markaðsfærslu vörunnar.

Að auki áttu sér stað kynningar fyrir stjórnendur orkufyrirtækja á styrkveitingatímabilinu, bæði við innlend og alþjóðleg fyrirtæki. Markmið þeirrar vinnu er að byggja upp samstarf við sterk orkufyrirtæki á heimsvísu um áframhaldandi þróun á eBBI. Það gefur væntingar um enn frekari þróun á eBBI og mælingum á vörumerkjavirði.

Sjá nánar á  https://brandr.is/

HEITI VERKEFNIS: Uppbygging markaðsinnviða vegna markaðssóknar Ebbi
Verkefnisstjóri: Íris Mjöll Gylfadóttir
Styrkþegi: brandr ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Fjöldi styrkára: 1
Fjárhæð styrks: 10 millj. IS kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica