COSEISMIQ - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.3.2022

COSEISMIQ verkefnið var samstarfsverkefni fimm evrópskra rannsóknarstofnana og Orkuveitu Reykjavíkur. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) voru eina íslenska stofnunin en Háskólinn í Zürich (ETHZ) leiddi verkefnið. Það snerist um að þróa aðferðir til að geta fylgst með og jafnvel haft áhrif á jarðskjálftavirkni í tengslum við vinnslu og niðurdælingu á nýttum jarðhitasvæðum.

Hengilssvæðið var rannsóknarsvæði verkefnisins og sett var upp þétt net skjálftamæla haustið 2018. Í mælanetinu voru samtals hátt í 40 mælar, þar á meðal mælar frá Orkuveitu Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands.

Mælingar stóðu yfir í tæp þrjú ár og eru gögnin sem söfnuðust meðal verðmætustu afurða verkefnisins. Þau eru opin og aðgengileg öllum og munu nýtast um vísindamönnum til rannsóknar á Hengilssvæðinu um langa hríð.

Logo tækniþróunarsjóðsGóður árangur náðist í þróun á aðferðum til að betrumbæta eftirlit og staðsetningar á smáskjálftum í verkefninu. Áskoranir sem mættu okkur voru meðal annars að skjálftavirkni á jarðhitasvæðum einkennist af smáum skjálftum (stærð < 3.0) og þar sem Hengilssvæðið er náttúrulega virkt skjálftasvæði getur reynst erfitt að greina á milli náttúrulegra og örvaðrar skjálftavirkni. Oft koma hrinur af skjálftum þar sem virknin er svo ör að erfitt er fyrir sjálfvirkt tölvukerfi að gera grein á milli einstakra skjálfta. Þá er Hengillinn gríðarlega flókinn jarðfræðilega og með mikinn fjölda borhola sem gerði okkur erfiðara fyrir þegar reynt var að herma viðbrögð jarðhitakerfisins við niðurdælingu. Síðast en ekki síst er Hengilssvæðið veðravíti, svo mikil vinna fór í að halda skjálftamælanetinu gangandi. Við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg þar kærlega fyrir. 

Út úr verkefninu koma hagnýtar aðferðir fyrir bæði vísindamenn og stjórnendur jarðhitavirkjana bæði á Íslandi og í Evrópu. Þar á meðal eru stillingar sérsniðnar að smáskjálftavirkni fyrir Seiscomp skjálftaforritið, viðbótarforrit við Seiscomp sem gerir nákvæmar jarðskjálftastaðsetningar í rauntíma, forrit sem nýtir sér vélanám (e. machine learning) til að reikna brotahreyfingar skjálfta og líkön sem herma viðbrögð svæðisins við nýtingu. Ekki má gleyma auknum skilningi á jarðhitaauðlindinni á Hengilssvæðinu sem gert er skil í vísindagreinum sem ýmist hafa nú þegar birst eða eru í vinnslu.

HEITI VERKEFNIS: COSEISMIQ

Verkefnisstjóri: Sigríður Kristjánsdóttir

Styrkþegi: Íslenskar orkurannsóknir

Tegund styrks: Geothermica

Fjöldi styrkára: 3

Fjárhæð styrks: 50.797.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica