ExploGuard – Novel explosive welded corrosion resistant clad materials – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

12.12.2018

Verkefnið miðaði að því að leysa tæringarvandamál í orkuiðnaðinum með því að nýta svokallaða sprengisuðu.

Verkefnið ExploGuard (2014-2017) var fjölþjóðlegt verkefni sem styrkt var innan M-ERA.NET samstarfsnetsins í efnisrannsóknum. Verkefnisstjórn var í höndum Tækniháskólans í Varsjá í Póllandi en íslenski hluti verkefnisins var styrktur af Tækniþróunarsjóði og var þeim hluta stýrt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Verkefnið miðaði að því að leysa tæringarvandamál í orkuiðnaðinum með því að nýta svokallaða sprengisuðu. Sprengisuða, þar sem tvö eða fleiri efni eru skeytt saman með því að nýta sprengiefni, er suðuaðferð sem uppgötvaðist fyrir tilviljun í síðari heimsstyrjöld. Með henni má binda saman plötur af ólíkum efnum, t.d. þunna klæðningu af dýru en tæringarþolnu efni ofaná ódýrara grunnefni sem er viðkvæmara er fyrir tæringu. Sprengisuðuferlið er einnig gagnlegt að því leyti að með því má fá þykkari klæðningu á grunnefnið en fæst t.d. með dufthúðun. Verkefnið miðaði að því að þróa sérstaklega efnasamsetningar með tilliti til krefjandi aðstæðna í jarðhitaiðnaði og voru þær samsetningar prófaðar í raunaðstæðum á Íslandi í samstarfi við orkufyrirtækin HS Orku og Landsvirkjun. Hefðbundið stál var sprengisoðið með klæðningu úr ólíkum tæringarþolnum efnum hjá samstarfsaðilum í Póllandi og prófað í jarðhitaumhverfi á Reykjanesi og í Kröflu. Ítarlegar rannsóknir og prófanir voru framkvæmdar á sprengisoðnum sýnum, bæði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóla Íslands og á rannsóknarstofum erlendra samstarfsaðila í verkefninu, fyrir og eftir prófanir í jarðhitaumhverfi. Með þessum rannsóknum var mögulegt að finna þau klæðningarefni sem best stóðust áraun í jarðhitaumhverfi. Hitameðferð eftir sprengisuðu er almennt nauðsynleg til að minnka innri spennu milli klæðningar og grunnefnis og koma í veg fyrir viðloðunarvandamál en í ljós kom að sú klæðning sem sýndi mest tæringarþol þoldi illa slíka hitameðferð og var millilagi úr kopar því bætt á milli málmanna tveggja til að draga úr innri spennum milli klæðningar og grunnefnis. Með því var hægt að koma í veg fyrir viðloðunarvandamál án hitameðferðar. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast orkufyrirtækjum í áframhaldandi efnisþróun til að tryggja betri endingartíma íhluta í jarðhitakerfum.

Heiti verkefnis: Novel explosive welded corrosion resistant clad materials (ExploGuard)
Verkefnisstjóri: Kristján Leósson
Styrkþegi: Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 27 milljón kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 1409-0001









Þetta vefsvæði byggir á Eplica